140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa rifjað upp skötuselsmálið. Það var allsérstakt og varð til þess að Samtök atvinnulífsins sögðu upp stöðugleikasáttmálanum, eins og mig minnir að það plagg hafi heitið, þau eru nú svo mörg plöggin sem ríkisstjórnin hefur skrifað undir og með ýmsum nöfnum að ekki er hægt að henda á því reiður lengur.

Hv. þm. Jón Bjarnason svaraði ekki spurningu minni og því ætla ég að grípa aftur niður í þetta rit sem heitir Hafið, bláa hafið. Það er kannski jafninnihaldsríkt og Litla gula hænan, en virðist alla vega ekki vera innihaldsríkt núna vegna þess að Vinstri grænir fara ekki eftir því.

Hér stendur, með leyfi forseta:

„Umræður um sjávarútvegsmál hafa því miður lengi verið fastar í deilum um kvótakerfið sjálft á kostnað þess að rætt hafi verið um sóknarfæri greinarinnar til framtíðar.“

Hvergi nokkurs staðar í frumvarpinu um veiðileyfagjöldin sem við ræðum er að finna sókn til framtíðar, annað en að sturta þessu inn í ríkissjóð fyrir útdeilingu (Forseti hringir.) upp á nýtt, á sama hátt, eins og hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á, og gert var við gjaldið af skötuselnum.

(Forseti (ÁI): Forseti vill biðja hv. þingmenn að virða tímamörk.)