140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

samþjöppun á fjármálamarkaði.

[17:02]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka sömuleiðis fyrir þessa umræðu. Ég tel að það hafi verið samhljómur hér í máli manna um meðal annars mikilvægi þess að tryggja fjölbreytni með því að sparisjóðirnir eigi sér tilvistargrundvöll og sömuleiðis að hafa í huga að samkeppni og of mikil samþjöppun á fjármálamarkaði sé að sjálfsögðu ekki æskileg um leið og við verðum að vera raunsæ hvað það snertir að Ísland þarf náttúrlega ekki á að halda einhverju ofvöxnu bankabákni sem er dýrt. Það þarf líka að vera skilvirkni og skynsemi og hagkvæmni í þessari starfsemi eins og allri annarri, því að ef menn ekki gæta þess eru það einfaldlega viðskiptavinirnir að lokum sem bera þann kostnað í hærri vaxtamun o.s.frv.

Af því að hér var nefndur eftirlitskostnaðurinn og ýmis kostnaður sem hefur lagst á fjármálakerfið þá er það út af fyrir sig rétt. Hann er óvenju þungur um þessar mundir af ýmsum ástæðum sem við þekkjum, m.a. vegna þess að Fjármálaeftirlitið hefur þurft að hafa mikið umleikis til að ná utan um ástandið sem hér hefur skapast og til að rannsaka mál og koma þeim frá sér, en við gerum ráð fyrir því að sá kostnaður sé nú í hámarki og fari síðan lækkandi.

Sama gildir um kostnað af rekstri embættis umboðsmanns skuldara sem er umtalsverður og fjármálastofnanirnar deila á sig, kostnað við eftirlitsnefnd um skuldaúrvinnslu og fleira þar fram eftir götunum. Nú má fara að gera sér góðar vonir um að það fari að draga úr þessum kostnaði, og mögulega einnig þeirri þátttöku bankanna í sérstökum vaxtaniðurgreiðslum sem þeir bera, þannig að þá ætti að létta á þessum útgjaldalið og það verði til bóta.

Ég deili ekki skoðunum með hv. þm. Pétri Blöndal að ríkið sé hér alltumlykjandi og ráði þessu öllu. Það finnst mér ekki vera rétt mynd af hlutunum þó að óbeint séu í eigu skilanefnda sem á sínum tíma voru skipaðar af hinu opinbera, bankar í gegnum eignarhaldsfélög o.s.frv.

Að lokum legg ég aftur áherslu á að ég held að það sé ákaflega mikilvægt að reyna að fá saman að borði þá aðila sem gætu lagt saman kraftana til að veita betri þjónustu í hinum dreifðu byggðum. Íslandspóstur, sparisjóðir eða bankar og sveitarfélögin sem í sumum tilvikum hafa komið að málum, eins og til dæmis á Raufarhöfn þar sem nú er í boði bankaþjónusta og póstdreifing vegna þess að menn náðu (Forseti hringir.) að sameina kraftana og skapa þannig grundvöll fyrir einni afgreiðslu þar sem saman fer póstdreifing, bankaþjónusta og starfsemi sveitarfélags.