140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:27]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Málið kom vanbúið og vanhugsað hingað inn í þingið. Menn rákust strax á að það reikniverk sem lagt var upp með og þau gögn sem lagt var upp með voru algjörlega ónothæf sem grundvöllur fyrir gjaldtöku.

Það er alveg hárrétt að gangi þetta frumvarp fram og verði að lögum mun það hafa, í það minnsta að óbreyttu, gríðarlega alvarleg áhrif á sjávarútveginn. Það mun auðvitað þýða að þeir sem lánað hafa fjármuni til þessara greina standa frammi fyrir nýrri stöðu sem þeir áttu sennilega ekki von á þegar þeir lánuðu fjármuni til þessara fyrirtækja.

Landsbankinn og fleiri bankar, ég man alla vega eftir Arion banka, hafa lagt fram greinargerðir sínar og mat á afleiðingum þessa frumvarps. Af hálfu Landsbankans kom fram að afleiðingarnar, gengi þetta nú allt saman fram, yrðu afleiðingarnar, og þá er vægt til orða tekið, alveg skelfilegar og mjög alvarlegar fyrir rekstur þess banka.

Þess vegna held ég að skynsamlegt sé að fara með málið á þann hátt sem hv. þingmaður nefndi, að efnahags- og viðskiptanefndin skoði þessa stöðu og möguleg áhrif á íslenska bankakerfið ef þessi leið verður farin.

En þetta kemur þó enn og aftur upp: Hvernig í ósköpunum er hægt að réttlæta það að koma með mál inn í þingið um jafnmikilvæga atvinnugrein eins og sjávarútveginn, hafandi unnið það allt saman í einhvers konar einangrun, ekki borið það undir nokkurn mann, allt rammskakkt og vitlaust? Síðan á þingið á einhverjum hlaupum hér um hásumarið að reyna að fara að leiðrétta þessa vitleysu og búa til eitthvert kerfi til þess að leggja gjald á þessa mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar, vitandi að það hefur áhrif á byggðaþróunina, fjármálakerfið, laun sjómanna og landverkafólks og allra.

Þess vegna þurfum við að gefa okkur meiri tíma. Við þurfum að vanda okkur og við þurfum að læra af því að svona á ekki að vinna vinnuna sína.