140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Magnúsi M. Norðdahl fyrir alveg ágæta ræðu, sérstaklega til að byrja með, og meginhluta ræðunnar get ég sagt. Ég saknaði þess að hann gat þess ekki að hann væri í launalausu fríi sem aðallögfræðingur ASÍ þegar hann ræddi um umsögn þess ágæta sambands. Ég heyrði það alla vega ekki. Það hefði varpað ljósi á aðdáun hans á þeirri umsögn.

Hann talaði nokkuð um eignarréttinn, að hann væri jafnvel orðinn úreltur. Nú er það þannig að bæði í núgildandi stjórnarskrá og í drögum að stjórnarskrá frá stjórnlagaráði er talað um að eignarrétturinn sé friðhelgur, hann er talinn meðal mannréttinda, rétt á eftir réttinum til barns í tillögum stjórnlagaráðs og skoðanafrelsi. Erum við að hverfa frá þessum mannréttindum hér á Íslandi? Eða hvernig er málið vaxið?