140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spyr: Hver er glæpurinn að deyja eða að hætta sjómennsku eftir 50 ár, hver er glæpurinn? Það væri gott ef hv. þingmaður gæti svarað því. Ég hef ekki verið sjómaður og aldrei átt kvóta en ég sé að sumir eru ekki menn til að biðjast afsökunar og það verður hver að hafa fyrir sig. En ég vil spyrja hv. þingmann. Hvað telur hann að útgerðin geti borgað við þær aðstæður sem hún býr við núna þegar mikill gróði er í greininni? Hv. þingmaður kom inn á það áðan að það kostaði 80 milljónir að setja olíu á stórt fiskiskip. Við vitum að í veiðigjaldafrumvarpinu er sá kostnaður frádráttarbær áður en kemur til sérstaks veiðigjalds. Menn eyða ekki olíu meðan skip eru bundin við bryggju, heldur þegar þeir sækja sjó. Því spyr ég hv. þingmann að því hvað einn túr gæti gert, að öllu jöfnu, til móts við þetta til að sjá þessar upphæðir í samhengi. Sem betur fer er greinin að skila miklum hagnaði í dag og getur vel lagt til samfélagsins (Forseti hringir.) alveg eins og verkakonan og sjómaðurinn sem leggja af sínum lágu launum til samfélagsins.