140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:09]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurn hans. Hann kemur inn á nokkur atriði sem ég ætla að leitast við að svara.

Það var nú ekki alveg þannig að ég lofaði hér himnaríki og eintómum blómasöng eða að allir fengju vinnu við sitt hæfi en ég lofaði því að sjávarútvegurinn mundi lifa ágætu lífi eftir samþykkt þessa frumvarps og rakti það í löngu máli. Staðreyndin er sú að sjávarútvegurinn hefur verið vel rekinn undanfarin ár, skuldirnar hafa lækkað góðu heilli undanfarin missiri og framleiðnin eykst hröðum skrefum, er áætluð 78 milljarðar á þessu ári og væntingar um að enn betur horfi með kvótaaukningu sem vonandi verður staðreynd á næsta fiskveiðiári.

Ég fjallaði hins vegar um þjóðareignina, það er hárrétt. Ég fjallaði ekki mikið um þjóðina sem slíka, ég held við hv. þingmenn í þessum sal þekkjum hana álíka vel. Það er enginn einn sem getur gerst holdgervingur þjóðarinnar, að sjálfsögðu ekki, en umræðan um þjóðareignina skiptir afar miklu máli. Ég fór yfir það að grundvallarmunur er á þjóðareign og ríkiseign í þeim skilningi að ríkiseignum getur ríkisvaldið ráðstafað á hverju ári með því að samþykkja fjárheimildir í fjárlögum en grundvallaratriðið varðandi þjóðareign er að þær megi ekki framselja eða láta af hendi varanlega á einn eða neinn hátt, og eins og ég fór yfir er það hluti af frumvarpi stjórnlagaráðs sem þjóðin verður spurð álits á í kosningu í haust.

Stóra málið er þetta: Þetta frumvarp snýst einmitt um þjóðareignina og hvort menn hyggjast taka mark á 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Það hefur ekki verið gert í 25 ár í þessu landi, (Forseti hringir.) auðlindaarðurinn hefur nær allur setið eftir í atvinnugreininni, í sjávarútveginum, (Forseti hringir.) og sá er sannarlega ekki tilgangur 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.