140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ástæða til að lýsa ánægju með yfirlýsingar hv. þingmanns í fyrri hluta andsvars hans en vonandi voru það ekki innihaldslausar yfirlýsingar.

Hvað varðar stefnu Framsóknarflokksins er rétt sem hv. þingmaður nefndi að hún felur í sér upptöku hóflegs gjalds. Gjaldið sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa beitt sér fyrir er ekki hóflegt. Það þarf ekki að hafa mín orð fyrir því, það nægir að líta til mats sérfræðinga á því.

Eðlilegasta leiðin til þess að leggja á gjald tengt afkomu greinarinnar, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega að væri í stefnu flokksins, er að líta til hagnaðar. Ég held að það sé vænlegasta leiðin til að leggja á sanngjarnt gjald og taka mið af aðstæðum hvers fyrirtækis fyrir sig að menn líti til hagnaðar ólíkt því sem er í þessum tillögum þar sem ekki er tekið tillit til ólíkra aðstæðna fyrirtækja.