140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. Skúli Helgason veit geta þjóðir notið arðs af atvinnurekstri með ýmsum hætti. Sértæk skattheimta á borð við þá sem hér liggur fyrir er ekki forsenda þess að þjóðin njóti afraksturs af nýtingu auðlinda. Við sjálfstæðismenn höfum hins vegar verið þeirrar skoðunar að rétt væri að leggja á auðlindagjald og höfum staðið að því frá árinu 2000 að svo væri gert.

Menn hafa deilt um forsendur að baki útreikningi á því og hversu hátt það eigi að vera en menn hafa hins vegar ekki verið í hörðum deilum um það prinsipp að einhvers konar auðlindagjald væri greitt. Það er auðvitað allt annars eðlis en sá auðlindaskattur sem lagður er til í þessu frumvarpi. En varðandi það fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við hefur það auðvitað tekið mjög margvíslegum breytingum á þeim tíma sem um er að ræða, eins og hv. þingmaður veit. Stöðugar lagabreytingar hafa átt sér stað, oft til bóta, stundum til hins verra.

Ég skal vera alveg heiðarlegur með það að ég hef ekki verið sáttur við allt sem gert hefur verið í sjávarútvegsmálum síðustu 25 árin, öðru nær, ég hef verið ósáttur við ýmislegt. Ég tel þó að við búum í meginatriðum við tiltölulega gott kerfi miðað við það sem gerist á sviði sjávarútvegsmála. Ég held við búum bara við býsna gott kerfi sem skilar sér vel til þjóðarinnar í samanburði við það sem gerist annars staðar. Ég hef ekki áhyggjur af því að arður úr sjávarútvegi skili sér ekki til íslensku þjóðarinnar með einum eða öðrum hætti.

Ég spyr: (Forseti hringir.) Í löndum þar sem ekki er lagt sérstakt auðlindagjald á sjávarútveginn nýtur þjóðin þá ekki þess auðs sem hann skapar?