140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég veit að það var veitt leyfi í atkvæðagreiðslu fyrir lengri fundi en þingsköp segja til um. Ég var viðstödd þá atkvæðagreiðslu en greiddi reyndar atkvæði gegn því að fundurinn yrði fram á kvöld.

Ég veit líka fullvel að mælendaskráin er löng. Ég veit hins vegar ekki, frú forseti, svarið við því sem ég spurði hæstv. forseta um áðan. Ég endurtek spurninguna núna og óska eftir að fá ekki þau svör sem ég rakti hér áðan, þau svör þekki ég. Hversu lengi mun þessi þingfundur standa og hversu lengi er áætlað að þingfundur á morgun muni standa? Það vill þannig til, eins og hér hefur komið fram, að við eigum fjölskyldur, við eigum lítil börn og ég vildi gjarnan geta sagt mínum börnum hvenær von er á mér heim. Ég held að það væri einfaldara að útskýra þessa einu fjarveru ef ég gæti upplýst þau um það hvenær þingfundi yrði lokið þannig að ég gæti sagt þeim hvenær þau gætu átt von á því að fá mömmu heim.