140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á. Umsagnir fjármálafyrirtækja, þar með ríkisbankans Landsbankans, um það frumvarp sem hér var lagt fram eru í einu orði sagt verulegt áfall fyrir þá sem lögðu málið fram í þinginu. Það er eins og menn láti sér það einhvern veginn í léttu rúmi liggja, menn virðast ekki hafa neitt sérstaklega miklar áhyggjur af því. En þar kom fram að um var að ræða meiri háttar hrinu gjaldþrota sem hefði áhrif á þau fyrirtæki og það samfélag sem þau störfuðu í, áhrifin voru líka á fjármálastofnanirnar sjálfar, lánveitingar þeirra til þessara fyrirtækja. Hér er um að ræða Landsbankann sem er ríkisbanki og þá um leið hefði það áhrif á stöðu þess banka og þar með á eign ríkisins.

Það verður að segjast eins og er að það mat sem kom þar fram er mjög alvarlegt og enn og aftur, virðulegi forseti, skiptir máli að senda nú þessar tillögur nefndarinnar (Forseti hringir.) út til umsagnar þannig að við fáum mat annarra á þeim áður en lengra er haldið.