140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:46]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Um leið og ég þakka þingmanninum um sumt ágæta ræðu verð ég að leiðrétta það þegar hún fullyrti að þingmenn stjórnarinnar ætluðu ekki að taka meiri þátt í þessari umræðu. Það er að sjálfsögðu rangt. Hér eru þingmenn úr stjórnarliðinu og taka ótt og títt til máls og spyrja spurninga en ég sé að þegar spurt er flókinna og skarpra spurninga kjósa þingmenn í stjórnarandstöðu að taka ekki til máls enda er þeim auðvitað svara vant þegar spurt er af skynsemi.

Þingmaðurinn ræddi mikið um réttlæti og spurði hvort það væri virkilega þannig að stjórnin ætlaði sér að allir gætu farið að veiða. Þá ráðlegg ég þingmanninum að kynna sér frumvarpið. Í því er gert ráð fyrir að 90% þessara heimilda verði í höndum þeirra sem nú gera út til 20 ára og síðan með endurnýjun þannig að það er ekki vilji stjórnarinnar, ef frumvarpið er lesið, að allir eigi að fara út að veiða.

Síðar í ræðunni sagði þingmaðurinn að hún vildi sjá að allt fólk gæti skapað sér grundvöll og haslað sér völl. Þá hélt ég á köflum að hún væri farin að tala um að allir ættu að geta farið út að veiða. Á þá að skilja ræðu hennar þannig að allir eigi að geta farið út að veiða eða er hún sammála ríkisstjórninni um að þessar aflaheimildir eigi að 90% að vera í hlut og vera í umráði þeirra sem nú fara með þessar heimildir?