140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Nú óska ég eftir því að hæstv. forseti bregðist við ábendingum mínum vegna þess að mér heyrist á máli hæstv. forseta að þær hafi ekki skilað sér alla leið. Enn heldur hæstv. forseti áfram að benda okkur á hversu margir séu á mælendaskrá. Það sem ég hef verið að reyna að útskýra fyrir virðulegum forseta er að annars vegar er mjög mikilvægt að umræðan skili árangri, sé gagnleg, að hér eigi sér stað rökræða milli þeirra sem að þessu máli standa og þeirra sem hafa ýmislegt við það að athuga. Hins vegar er mjög mikilvægt að menn séu ekki settir í þá stöðu að þurfa að endurtaka sig vegna þess að það verða mjög fáir varir við þær aðvaranir sem fram hafa komið í máli stjórnarandstöðunnar og viðbrögðin hafa raunar verið engin, (Gripið fram í.) ekkert að ráði. Hver er afleiðingin af því, frú forseti? Nú skal ég ljóstra upp um dálítið leyndarmál sem virðulegur forseti hefur kannski ekki gert sér grein fyrir. Ef menn þurfa stöðugt að vera að endurtaka sig þá þurfa þeir stöðugt að skrá sig aftur á mælendaskrá og þess vegna helst (Forseti hringir.) mælendaskráin löng. (Forseti hringir.) Hugsanlega gæti verið ráð að fresta fundi til að stytta mælendaskrána. Þetta er smáábending, virðulegur forseti.