140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki af hverju ég lendi í því að vera oft spurður um hugarheim Vinstri grænna. Ég á mjög erfitt með að svara þessu því að mér finnst eins og flest af því sem sá ágæti flokkur fór af stað með fyrir síðustu kosningar hafi einhvern veginn gleymst eða snúist við. Ég hygg að það að Vinstri grænir skuli styðja þessa vegferð sé bara enn einn hluti af því að reyna að halda völdum. Það er hins vegar búið að fórna miklu í það glataða verkefni en þannig er líklega pólitíkin á þessum bæ.

Mig langar í lokin, frú forseti, að minnast á eitt. Ég sá nefnilega á einum vefmiðlinum, og ég leyfði mér að deila þeirri frétt á þessari blessuðu Facebook, að einn hv. þingmaður sagði á fésbókarsíðu sinni að á Austurvöll hefðu mætt útgerðarmenn og leiguþý þeirra. (Forseti hringir.) Þetta var hv. þm. Þór Saari svo að aðrir þingmenn liggi ekki undir grun um þetta. Mér finnst algerlega út úr kortinu að halda slíku fram um sjómenn og verkafólk í landi.