140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[12:04]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns er nefndin öll samþykk því að þessi tillaga verði samþykkt með einni breytingu. Ef hv. þingmaður hefur farið yfir það hef ég misst af því. Samkvæmt nefndaráliti er lagt til að 4. mgr. tillögugreinarinnar falli brott. Hún orðast svo, með leyfi forseta:

„Alþingi áréttar að enginn vafi leiki á að stjórnarskrá, lög og reglur verji eignarréttindi erlendra fjárfesta á Íslandi með sama hætti og eignir íslenskra ríkisborgara.“

Það er sjónarmið sem ég get svo sem fallist á, þ.e. að svona málsgrein eigi ekki að þurfa að vera í svona tillögu. Ég óttast það samt að ef við förum að skilgreina í fleiri málum hvenær stjórnarskráin gildir og hvenær ekki séum við komin út á hálan ís. Hver er ástæða þess að það er lagt til að þetta falli brott? Hver eru rökin fyrir því og hvaða skilaboð getur það sent erlendum fjárfestum sem, eins og hv. þingmaður rakti ágætlega í máli sínu, hafa komið hingað og ekki fengið blíðar viðtökur, svo ekki sé fastar að orði kveðið, þegar þeir sjá í upphaflegu tillögunni að þarna eigi að tryggja þeim öll þau sömu réttindi og íslenskir ríkisborgarar hafa? Nú sjá þeir að það er búið að taka þetta út — getur það ekki falið í sér skilaboð sem væri erfitt að útskýra fyrir þeim?