140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[12:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta mun kannski flokkast sem meðsvar en ekki andsvar vegna þess að ég tek eindregið undir með hv. framsögumanni meiri hluta samgöngunefndar að rétt sé, áður en lengra er haldið í afgreiðslu samgönguáætlunar, að umhverfis- og samgöngunefnd fái tækifæri til að fjalla um málið og eftir atvikum bíða eftir niðurstöðum varðandi mál eða að minnsta kosti að menn sjái fram á niðurstöðu í málum sem augljóslega munu hafa áhrif á endanlega afgreiðslu þess.

Hér hefur verið nefnt frumvarpið um veiðileyfagjöld sem auðvitað er í nokkurri óvissu enn þá og ekki átakalaust mál eins og hv. þingmenn þekkja. Samkvæmt breytingartillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir að 2,5 milljarðar á ári komi aukalega inn í samgönguáætlun vegna tekna sem koma af veiðileyfagjöldum þannig að samhengið er augljóst. Síðan erum við ekki alveg með það á hreinu hvaða stefnu Vaðlaheiðargangamálið tekur, eins og ég nefndi í umræðu um það fyrr í dag, og það kann eftir atvikum að hafa áhrif á samgönguáætlun enda liggur fyrir bókun frá meiri hluta samgöngunefndar, sem m.a. ég og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir eigum aðild að, sem kveður á um að kalla eigi Vaðlaheiðargöngin inn til umhverfis- og samgöngunefndar og taka það mál fyrir í samhengi við samgönguáætlun. Þess vegna er augljóst að mínu mati að við getum ekki lokið umfjöllun um samgöngumál fyrr en umhverfis- og samgöngunefnd hefur komið aftur að málinu. Ég beini því kannski frekar til forsetans en til hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að nota matarhléið til að átta sig á því hvernig best er að stíga næstu skref í þessum efnum.