140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[14:34]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ítarlegt og gott nefndarálit. Reyndar tel ég að með frumvarpinu í heild þegar það kom fram frá hæstv. samgönguráðherra Ögmundi Jónassyni, hafi á vissan hátt verið brotið blað í gerð samgönguáætlana, með því að leggja höfuðáhersluna, þegar fjármagn er takmarkað, á vegi á landsbyggðinni sem stóðu kannski verst. Ég tel að þess megi sjá víða stað í þessu ágæta frumvarpi og nefndin hefur síðan haldið áfram og unnið á sömu nótum þó að ég sé sammála hv. þingmanni að enn megi betur gera eins og kom ítarlega fram í nefndaráliti hans.

Ég ætla hins vegar að spyrja hv. þingmann, af því að ég veit að hann er í umhverfis- og samgöngunefnd, um strandsiglingar. Þótt það sé ekki bara mál minni hlutans eða meiri hlutans heldur mál Alþingis hvernig með það er farið, þá hefur það verið, eins og við vitum, mikið áherslumál margra þingmanna af landsbyggðinni að koma á strandsiglingum. Hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson hefur líka lýst sig mjög fylgjandi strandsiglingum og skipaði starfshóp til að fara yfir hvernig mætti freista þess að koma þeim í gang. Sá starfshópur skilaði af sér að mig minnir í endaðan janúar og lagði til að ráðist yrði í útboð á skilgreindu magni af flutningum í strandsiglingum. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvar þetta mál stendur, kannski veit hv. þingmaður það ekki heldur, en í nefndaráliti meiri hlutans segir að unnið sé að útboðum fyrir strandsiglingar en ekki tilgreint sérstakt fjármagn til þess heldur á það að koma eftir á. Mér leikur mikil forvitni á að vita hvernig þetta mál stendur. (Forseti hringir.) Ég hefði átt að beina þessari spurningu til framsögumanns meiri hlutans en ég var ekki í salnum (Forseti hringir.) þegar hún flutti nefndarálit sitt.