140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[18:33]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er með mikilli ánægju sem ég fæ tækifæri til að segja já við þessu lagafrumvarpi. Það er ávöxtur af því sem við teljum að einkenni þau samfélög sem við viljum helst líkjast, þ.e. þríhliða samstarf á vinnumarkaði. Þá skiptir engu máli hver er við völd, hvort það er hægri eða vinstri eða hvort það er á miðjunni. Þríhliða samstarf liggur til grundvallar farsælum samskiptum á íslenskum vinnumarkaði og um þau málefni sem þar er höndlað.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að launafólk í gegnum lífeyrissjóði sína, stjórnvöld og atvinnurekendur sameinist um að mæta vandamáli sem hafði verið vanrækt um langt árabil. Þetta er mikið og gott mál sem verður til farsældar fyrir allt launafólk og þá sem eiga við erfiðleika að glíma til að geta verið á vinnumarkaði eða til að komast á vinnumarkað að nýju.