140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[22:39]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi dæmi hv. þingmanns sýna náttúrlega í hvers konar blindgötur og villigötur hæstv. ríkisstjórn er komin í þessu máli. Eins og hv. þingmaður rekur fær ríkissjóður 54 milljarða kr. í sinn vasa af umferð og bílum í einu eða öðru formi. Af því fara 30% til vegamála. Síðan er ákveðið að leggja skatt á allt aðra hluti, leggja skatt á veiðar fiskiskipa. Þá er tekin ákvörðun um að einhver hlutdeild af þeim skatti fari í að leggja vegi.

Hefðu menn ekki alveg eins getað farið þá leið að segja bara: Nei, við ætlum ekki að taka 30% af eldsneytinu og vörugjaldinu og bílunum og því öllu saman í vegi heldur ætlum við að taka 40% eða 50% — og þannig gætum við fjármagnað meiri vegagerð? Við sjáum auðvitað að þetta er allt einhvers konar leikaraskapur. Það er bara verið að segja: Við gerum okkur grein fyrir því að veiðiskatturinn er kannski ekkert orðinn sérstaklega vinsæll, eins og menn héldu að hann yrði, og nú er um að gera að gylla það mál svolítið vel. Við skulum bara segja að við eyrnamerkjum, eins og hv. þingmaður gerir við lambfé sitt á vorin, þá peninga sem koma inn í ríkissjóð frá skipunum á landsbyggðinni. Svo er sagt: Þetta eru peningarnir sem við ætlum að setja í vegina.

Málið verður allt saman mjög sérkennilegt þegar hv. þingmaður setur það í þetta samhengi. Á sama tíma á sá hluti sem notar vegina, þ.e. ökutækin, ekki að leggja nema 30% af tekjum sem af því hlýst fyrir ríkissjóð — það á ekki að fara nema 30% af því í vegi. Hefði ekki verið miklu eðlilegra, ef menn vildu fara þá leið að eyrnamerkja þetta svona krónu fyrir krónu, að segja sem svo að það sem við tökum af bílunum fer í vegi og það sem við tökum af skipunum fer í eitthvað annað, ríkissjóð eða hvað sem er?

Af þessu sjáum við að þetta verður allt saman mjög sérkennilegt í rökrænu samhengi.