140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

uppgjör SpKef og Landsbankans.

[11:23]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við ræðum hér sorgleg örlög og framhaldslíf Sparisjóðs Keflavíkur. Staðreyndin er sú að sjóðurinn var holaður að innan af stjórnendum sjóðsins fyrir hrun. Það tap lendir á skattgreiðendum. Mér finnst pínulítið hlægilegt að sjá menn reyna að klína því tapi yfir á ráðherrann, ég verð að segja það. En hefði mátt standa öðruvísi að þessu? Já, örugglega, það hefði örugglega verið hægt að gera þetta einhvern veginn öðruvísi. Ég hefði viljað sjá Bankasýsluna koma meira inn í þetta. Við búum við það að hér voru sett neyðarlög, hér var við völd ríkisstjórn sem lofaði því að tryggja allar innstæður í landinu. Þótt sú yfirlýsing hafi ekki lagalegt gildi er hún enn í gildi og það var farið eftir henni í þessu tilfelli. Það er ekkert nýtt. Þetta var kannski galin hugmynd, að mínu mati hefði verið nóg að fara upp að tryggingunni, 20 þús. evrum, eða 90–95% af innstæðum. Það var ekki gert. Þetta var gert nákvæmlega eins og þegar hinir bankarnir voru endurreistir. Svo getum við tekist á um það.

Ég held að æskilegra sé að áður en farið er í svona aðgerðir sé þingið haft með í ráðum og að þangað sé leitað heimilda. Eins og hér hefur komið fram þarf þess ekki samkvæmt lögum. Mér hefur líka fundist óþarflega mikil leynd yfir þessu öllu. Til dæmis hafa núna verið gerðar tvær skýrslur og ég hef beðið um þær báðar. Atriði úr þeim hafa ratað í fjölmiðla en ég hef ekki fengið þær. Ég hef hingað til bara fengið slitrur og efnisyfirlit.