140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

uppgjör SpKef og Landsbankans.

[11:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að það svíði fáa sárar en mig sem fjármálaráðherra að sjá þær miklu fjárhæðir sem ríkið þarf að reiða fram vegna Sparisjóðs Keflavíkur. Svo sannarlega hefði ég frekar viljað ráðstafa þeim til velferðarverkefna eða til að efla atvinnulífið, en bankakerfið á Íslandi hrundi nánast til grunna með óheyrilegum kostnaði. Strax í kjölfar hrunsins gáfu íslensk stjórnvöld út loforð um vernd innstæðna og við það loforð var staðið. Það er rétt að ítreka að stofnun SpKef sparisjóðs helgast af því einu að stjórnvöld hugðust standa við gefnar skuldbindingar um vernd innstæðna. Hefði það ekki verið gert hefðu innstæðueigendur í Sparisjóði Keflavíkur, einir innstæðueigenda á Íslandi, ekki fengið innstæður sínar tryggðar. Ég held að hv. málshefjandi hljóti að vera mér sammála um að það hefði ekki verið réttlát niðurstaða.

Engin auðveld lausn var í boði til að taka á vanda Sparisjóðs Keflavíkur og ljóst er að virði eignasafnsins var stórlega ofmetið, innviðir sparisjóðsins voru mun veikari en menn grunaði. Staða fyrirtækja og atvinnuástand á starfssvæði sjóðsins var slæmt og orðspor sjóðsins stórlega laskað. Rannsókn á falli sparisjóðanna stendur nú yfir og niðurstöðu hennar er að vænta í haust. Þá fáum við vonandi svör við því hvað varð til þess að Sparisjóður Keflavíkur fór svo illa, banki sem stofnaður var á Útskálum í Garði árið 1907 og var í 100 ár eitt helst stolt Suðurnesjamanna. Tengsl bankans og sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ munu vonandi skýrast með rannsókninni. Reiði stofnjáreigenda sem töpuðu öllu sínu er skiljanleg en það er hins vegar umhugsunarefni að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks vilji kasta ryki í augu almennings og beina sjónum frá ábyrgð og hegðun stjórnenda sparisjóðsins og þeim sem auðvelduðu þeim hátternið og draga athygli frá raunverulegum ástæðum þess að ríkissjóður þarf að reiða fram 19 milljarða vegna falls Sparisjóðs Keflavíkur.