140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[15:05]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég get ekki látið hjá líða sem starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar að minna á þær athugasemdir og þá gagnrýni sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur sett fram í þessu máli fyrir að hafa ekki fengið málið til umfjöllunar vegna samhengis þess við aðrar samgönguframkvæmdir og jarðgangaframkvæmdir sem bíða og eru brýnar. Í því sambandi vísa ég til bókunar meiri hluta nefndarinnar með samgönguáætlun. Það er árétting á fyrri afstöðu nefndarinnar sem kom fram í bréfi til hæstv. forseta Alþingis fyrr á þessu þingi.

Þetta mál á sér langan aðdraganda. Það er umdeilt þvert á flokka en til áréttingar þessu sjónarmiði, sem lýtur að málsmeðferðinni og sögu málsins í þinginu en ekki því að ég sé persónulega andstæð framkvæmdinni, mun ég sitja hjá við atkvæðagreiðslu á eftir. Ég get ekki greitt þessu (Forseti hringir.) máli atkvæði mitt eins og sakir standa þó að Vaðlaheiðargöng geti átt rétt á sér á réttum tíma í réttu samhengi.