140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

aðgerðir gegn einelti.

[10:47]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég óska hv. þm. Guðrúnu H. Valdimarsdóttur innilega til hamingju með að vera komin í þingið og með sína jómfrúrræðu. Það er afar vel við hæfi að hún velji þetta efni, eineltismál, þar sem hún hefur tekið þátt í baráttunni gegn einelti á vettvangi foreldrasamtakanna. Við áttum tækifæri til að undirrita einmitt þennan samning sem hv. þingmaður vitnaði í. Mikil alvara er á bak við það að vinna vel að þessum málum enda veitir ekki af, því að eins og hv. þingmaður vakti athygli á hér eru eineltismál dauðans alvara.

Hv. þingmaður spyr síðan um fagráðið sem var eitt af þeim atriðum sem átti að vinna að. Í framhaldi af þessari undirskrift var unnin greinargerð þar sem settar eru fram 30 tillögur um hvernig berjast eigi gegn einelti. Þessu er skipt niður í ákveðin verkefni, almenn verkefni sem eru verkefni snúa að skólum og verkefni sem snúa að vinnustöðum. Eitt af því sem þarna var sett upp er einmitt fagráð sem tók til starfa í maímánuði. Ég hef því miður ekki svar við fjölda fyrirspurna eða erinda en það liggur þó fyrir að þegar er kominn fjöldi fyrirspurna og komin eru nokkur erindi til úrskurðar til fagráðsins. Þetta er því allt að komast í fullan gang.

Það er líka búið að birta á heimasíðu verkefnisins sem er gegneinelti.is verklagsreglur þar sem skólum er gerð grein fyrir þeim því að þar er sérstaklega tekið á málum innan skólans og þeim verkferlum sem þarf að setja í gang varðandi eineltismál. Þar er lögð mjög rík áhersla á að skólarnir fylgi sínum eigin áætlunum, hafi skýra verkferla og ef upp kemur ágreiningur í lokin er einmitt fagráðinu beitt sem getur verið nauðsynlegt á smærri stöðum þar sem kunna að vera þær aðstæður að útilokað er að taka á málinu öðruvísi en að utanaðkomandi aðilar komi að því.