140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:30]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þykist nú vita að við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson séum um margt sammála þegar kemur að málefnum Íbúðalánasjóðs enda er hann þingmaður Norðvesturkjördæmis þar sem sjóðurinn þjónustar fjölmarga og mun gera í náinni framtíð.

Hv. þingmaður er hér með tillögu sem kveður á um að veita Íbúðalánasjóði sömu heimildir og Landsbankinn hefur. Ég hef svo sem velt því upp hér hvers vegna ríkisstjórnin hafi ekki veitt Íbúðalánasjóði sömu tæki og ríkisbankinn, Landsbankinn, hefur.

Í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur klúðrað fjölmörgum tækifærum til að finna leiðir án þess að það kosti ríkissjóð tugi milljóna langar mig að spyrja hv. þingmann hvernig hann hyggist fjármagna þessa breytingartillögu sína sem ég vil ekkert slá út af borðinu fyrir fram. Við höfum meðal annars rætt að hægt væri að skattleggja séreignarlífeyrissparnaðinn. Hugmyndir hafa verið uppi um að hægt væri að fjármagna þessa leið með þeim hætti þannig að þetta mundi ekki auka skuldir ríkissjóðs. Ég hefði gjarnan viljað heyra hv. þingmann fara yfir það.

Ég hef hins vegar samúð með þessari tillögu og vil, eins og ég sagði áðan, ekkert útiloka stuðning minn við hana. En það er ekki eðlilegt að fólk sem taldi sig fara varlega með því að skipta við ríkisrekinn Íbúðalánasjóð skuli vera verr sett en það fólk sem skipti við bankakerfi sem hrundi. Ég held við þurfum að reyna að vinda eitthvað ofan af þessari stöðu á markaðnum.