140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

Vatnajökulsþjóðgarður.

[14:21]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. umhverfisráðherra og okkur öllum til hamingju með Vatnajökulsþjóðgarð, stærsta þjóðgarð í Evrópu, þjóðgarð sem hefur eflst, stækkað og styrkst undir forustu núverandi hæstv. umhverfisráðherra og við eigum og getum öll verið gríðarlega stolt af. Ég vil minna á að það felast enn mikil tækifæri í stöðunni.

Ég hlýt að rifja upp tildrögin að stofnun þjóðgarðsins sem er þingsályktunartillaga sem þáverandi hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lagði fram 1988 og hafði þá sýn að allt miðhálendi Íslands skyldi vera perluband stórra þjóðgarða í kringum stóru jöklana okkar, Vatnajökul, Hofsjökul, Langjökul og Mýrdalsjökul.

Vatnajökulsþjóðgarður varð að veruleika 2008. Í umhverfis- og samgöngunefnd liggur tillaga sem hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er 1. flutningsmaður að um Hofsjökulsþjóðgarð. Það eru enn eins og ég segi mikil tækifæri. Langjökull og Mýrdalsjökull eru eftir.

Frú forseti. Akstur utan vega er alvarlegt vandamál. Við höfum á undanförnum vikum og mánuðum séð hryllingsmyndir af þeim svöðusárum sem vélknúin ökutæki hafa markað í viðkvæma náttúru landsins. Menn hljóta að spyrja: Af hverju bregst Alþingi ekki við? Hver skyldi vera skýringin á því, hv. forseti? Er það svo að hæstv. ráðherra hafi komið seint eða alls ekki með mál inn til þingsins? Nei. 8. nóvember síðastliðinn kom inn mál frá hæstv. ráðherra um að taka á akstri utan vega. 15. nóvember var það komið í nefndina. Það voru haldnir 15 fundir. Það var komið til 2. umr. 20. mars. Þá stoppaði Sjálfstæðisflokkurinn málið.

Ég ætla að ljúka orðum mínum á því að spyrja hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson: Hvers vegna var það? (MÁ: Heyr!)