140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Ég get verið sammála hv. þingmanni …

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmann að ávarpa forseta í upphafi ræðu sinnar.)

Virðulegi forseti. Ég var bara ekki kominn þangað. Mér finnst nú leiðinlegt að það sé búið að eyða tíma mínum í andsvarinu, virðulegi forseti, en ég hef einmitt verið gagnrýndur fyrir að ávarpa forseta of oft alla jafna, ef undan er skilið þegar einn mjög virðulegur forseti er í forsetastóli. Ég fæ iðulega slíkar athugasemdir. En ég gef nú í og tek afskaplega vel þessari leiðbeiningu.

Virðulegi forseti. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að prinsippið í þessu er auðvitað stóra málið. Ég hef litið á það þannig að mikil pressa sé á að fara í þessi göng og ég er þeirrar skoðunar að ekki hafi verið farið vel með íbúa á þessu svæði, en við skulum ekki fara að ræða það af hverju það er. Ég get vel skilið að menn vilji samgöngubætur. Ég hélt hins vegar að menn væru að reyna að leita lausna þannig að við værum ekki í tímaþröng með að klára málin og setja þau fram fyrir allt. Ég er með aðrar áherslur í umferðarmálum en margir og legg fyrst og fremst áherslu á umferðaröryggi. Ég lít svo á að þegar einhver bendir á leiðir til að láta þetta ganga upp, hvort sem það er Pálmi Kristinsson eða einhver annar, sé það hlutverk hv. þingnefndar að fara yfir það. Þá þurfum við til dæmis að ræða hvort það sé rétt sem Pálmi Kristinsson segir að loka þurfi Víkurskarðinu á veturna til þess að þetta gangi upp. Þá er það önnur leið en við höfum farið til þessa, við getum kallað það þriðju eða fjórðu leiðina. Ég held að það alversta í þessu sé að við leggjum ekki spilin á borðið eins og þau eru. Mér finnst að það hafi komið mjög málefnaleg rök fyrir því að þessir hlutir gangi ekki upp eins og þeir eru (Forseti hringir.) lagðir fram hér. Ég var að vonast til þess að hv. samgöngunefnd eða hv. fjárlaganefnd mundi ræða aðra valkosti.