140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, þær eru margar, skoðanirnar í Sjálfstæðisflokknum. Í þeirri breytingartillögu sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, flokksfélagi hv. þm. Péturs H. Blöndals, hefur lagt fram og ég vitnaði til er gert ráð fyrir því hvað þennan þátt snertir að Íbúðalánasjóður geti veitt sömu lausnir og Landsbankinn gerir. Ég er þeirrar skoðunar að það kynni að vera skynsamlegt að ganga lengra í þessa áttina og við eigum á hverjum tímapunkti að koma til móts við þá sem eru hjá Íbúðalánasjóði þannig að þeim sé gert mögulegt að fá sömu úrræði og bjóðast hjá Landsbankanum.

Ég styð þessa breytingartillögu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar en hins vegar furðaði ég mig á því í ræðu minni áðan að ríkisstjórnin skyldi ekki koma með þetta fram í frumvarpinu sjálfu því að þá hefðu þessar athugasemdir sem hv. þingmaður er með komið fram í umsögnum um málið og í vinnslu nefndarinnar. Ég furðaði mig á því í ljósi ummæla formanns efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Helga Hjörvars, og fyrrverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, nú hv. þm. Árna Páls Árnasonar, að farin skyldi þessi leið, þá hefði verið eðlilegt að ríkisstjórnin hefði lagt þetta til og að hér lægi fyrir vinna nefndarinnar. Það kann að vera að þetta hefði breyst eitthvað í meðförum nefndarinnar, ég skal ekki segja til um það, en ég styð þessa tillögu eins og hún lítur út hér og nú og sá rökstuðningur sem er á bak við hana og eins ítarlegra í frumvarpi til laga sem hv. þingmenn Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Árni Johnsen og Lilja Mósesdóttir lögðu fram á sínum tíma.

Hvað varðar seinni (Forseti hringir.) spurningu hv. þingmanns verð ég að koma inn á hana í mínu síðara andsvari.