140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[12:13]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki svarað fyrir nefndina alla en það átti sér stað umræða um hvort nauðsynlegt væri að sett væru sérstök lög um eignaleigur og ég heyrði ekki betur en að svo væri. Það er líka mín persónulega skoðun. Eiga lögin jöfnum höndum við um einstaklinga og lögaðila? Já, réttarreglurnar og afsal réttarverndar eiga við um lögaðila og einstaklinga að jöfnu. Á þetta við um safn lausafjár eða á þetta bara við um einstaka lausafjármuni? Um það fer eftir þeim reglum sem almennt gilda og þá skiptir ekki máli hvort það er safn eða einstakur munur.

Svo ég klári það sem ég var að segja áðan er fyrirframafsal réttarverndar ekki gilt í íslenskum lögum þannig að ef kemur upp ágreiningur og maður tekur vörslu munar, ef mótmælum er haldið uppi, felst í því ólögmæt sjálftaka. Það er það sem er í rauninni verið að reyna að setja tappann á, að ekki fari fram ólögmæt sjálftaka.

Síðan var það skoðað líka hversu langan tíma tæki að fá innsetningargerðina og kom í ljós að sá tími er mun skemmri en menn höfðu haldið. Sérstaklega á það við ef iðgjöld af bifreiðatryggingum, og um bifreiðar sem eru ótryggðar í umferð eru aðrar og sterkari reglur sem þar geta gripið inn til að taka slíkar bifreiðar úr umferð.

Ég held að einn einstaklingur úr réttarfarsnefnd hafi sagt: Þetta frumvarp felur ekki í sér neinar breytingar frá gildandi réttarástandi. Þessi lagaregla endurspeglar bara réttarástandið eins og það er. Þess vegna veldur hún engu tjóni, hún á ekki að valda neinum vafa, svona er réttarástandið. Það verður þá bara skýrara þannig að allir sem í hlut eiga vita nákvæmlega hver réttarreglan er. Ef fyrirtækin eins og Lýsing eða önnur vilja taka vörslur á lausafé þurfa þau að ganga úr skugga um að skriflegt samþykki sé til staðar. Það er ekki nóg að hafa gefið slíkt samþykki tíu árum áður eða fimm árum áður, menn verða að gefa það við vörslutökuna. Ef menn hafa ekki þetta samþykki bendir það til þess að það sé ágreiningur og þá gæti átt sér stað ólögmæt sjálftaka. Lögin segja það og við skulum ekki láta það gerast.