140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef mikla trú á almættinu en tel þó ákaflega valt að treysta á drottin almáttugan þegar kemur að kosningum. Ég er ekki viss um að hv. þingmanni verði að ósk sinni að það verði endilega hann sem sjái til þess að hér verði skipt um ríkisstjórn. Þó að ég útiloki ekki að einhverjar breytingar kunni að verða í framtíðinni þá held ég að það verði af öðrum völdum en endilega hans. En látum það vera.

Hv. þingmaður sagði að búið væri að bæta frumvarpið mjög mikið. Mér finnst það mikilvægt að hv. þingmaður sem er einn af helstu sérfræðingum Sjálfstæðisflokksins í hagstjórnarmálum skuli segja það fullum fetum að búið sé að bæta frumvarpið svo mikið að við liggi að það sé nánast fullnaðarsigur. Ég túlka það svo að hann telji að þá megi segja að frumvarpið sé fast að því fullkomið.

Hv. þingmaður sagði einnig að ríkisstjórnin hafi sýnt þann skilning á málflutningi stjórnarandstöðunnar að hún hafi lækkað veiðigjaldið úr 24 milljörðum niður í 12,5. Guð láti gott á vita. Ég er kannski ekki alveg sammála því að hin upphaflega upphæð hafi verið svo há, en ég ætla ekki að deila við hv. þingmann sem er gamall prófessor í hagfræði. Hann veit það miklu betur en ég. En ef það er dómur hans að málið sé orðið svo gott að það sé tækt til að afgreiða það þá fagna ég því.

Hv. þingmaður sagði að vísu að 12,5 milljarðar væri allt of mikið. Mig langar til að spyrja hv. þingmann, gera til þess veikburða tilraun undir lok umræðunnar að fá svar við spurningunni sem við fjölmargir stjórnarþingmenn höfum beint til stjórnarandstöðunnar í andsvörum, hvað er þá hæfilegt veiðigjald? Hvað er það veiðigjald hátt sem hv. þingmaður telur að við núverandi aðstæður muni útgerðin bera?