140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:14]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Allt er þetta meira og minna samtvinnað en ég tel það vera misskilning hjá hv. þingmanni þegar hann talar um að sáttaleiðin hafi verið samningur. Sáttaleiðin var ekki samningur. Hún var markmið sem átti að semja hugsanlega út frá — hugsanlega. (Gripið fram í.) Hún var ekki samningur. (PHB: Átti að semja …?) Hún var álitamál aðskildra hópa í samfélaginu sem koma að sjávarútvegi til sjós og lands og í ljósi sáttaleiðarinnar vonuðust menn til þess að gerður yrði samningur. (PHB: Við hvern?) — Samningur við stjórnvöld. Það er allt annað að vinna að því að gera samning og hafa gert hann því að þá þarf ekki að fara í að gera hann. Það er misskilningurinn hjá hv. þingmanni. Sáttaleiðin var ekki samningur, hún var markmið eins og stjórnarskrá hvers lands er í rauninni ekki samningur heldur markmið og í einstaka þáttum hnýtist hún lögum, en hún er markmið sem er mark á takandi. Þannig átti sáttaleiðin að vera. Með útfærslu á þeim þáttum sem sáttanefndin lagði til voru verulegar væntingar um allt land um að menn næðu samningi sem yrði þokkaleg sátt um. Það getur vel verið að þokkaleg sátt þýði að allir séu óánægðir en samt er sátt um málið. En því var bara hent og það hunsað.

Ég vil spyrja hv. þingmann á móti hvort hann sé sáttur við að sáttaleiðinni var stungið ofan í skúffu og geðþóttaákvarðanir stjórnarflokkanna teknar í stað þess að vinna á nótum sáttaleiðarinnar að lausn.