140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

689. mál
[21:08]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar örstutt að koma hingað upp og lýsa yfir ánægju minni með það skref sem er stigið með þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, og nefndarálit með breytingartillögu. Þeir sem til þekkja vita að Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum hafa barist um langt árabil fyrir niðurgreiðslum á húshitunarkostnaði þannig að það mundi jafna búsetuskilyrði hringinn í kringum landið. Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum hafa barist fyrir bættum hag íbúa sveitarfélaga og byggðarlaga sem heyra undir þau, hafa ekki notið þess að hafa aðgang að heitu vatni og hafa því setið uppi með mun hærri kostnað við hitun á húsnæði sínu. Allt frá árinu 2005 hefur niðurgreiðslan verið sama krónutalan en rafmagnsverð hefur hækkað jafnt og þétt þannig að hitareikningur á húsnæði hefur verið langt frá því sambærilegur á milli svæða. Það er því sérstaklega ánægjulegt það skref sem hér er stigið, í fyrsta lagi að fella niður lokamálslið 1. mgr. 12. gr. í lögum nr. 78/2002, að frá styrkfjárhæð skuli dreginn annar beinn eða óbeinn fjárhagslegur stuðningur ríkisins, stofnana þess eða sjóða til viðkomandi hitaveitu eða byggingar, því að eins og segir í athugasemdum við lagafrumvarpið er alls staðar jafndýrt að leita eftir heitu vatni og því mismunandi aðstæður fyrir minni byggðarlög að leggja út í þann kostnað.

Þá er jafnframt lagt til að niðurgreiðslna muni njóta í 12 ár í stað átta. Þetta mun hafa, svo ég endurtaki mig, gríðarlega mikla breytingu í för með sér fyrir sveitarfélög og hvetja til þess að borað verði eftir heitu vatni. Það eitt er alveg víst að rafmagnsverð mun ekkert gera annað en að hækka.

Það hefur áður komið fram í umræðum á þessu þingi, á haustmánuðum, um framlagningu tillagna um niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði að 90% þjóðarinnar njóta þess að vera með heitt vatn til hitunar á húsum sínum en 10% þjóðarinnar hita húsin sín með rafmagni.

Það er mikil sátt í nefndinni um framlagningu á þessu nefndaráliti með breytingartillögunni og ég trúi ekki öðru en að 90% þjóðarinnar samfagni þeim 10% sem ekki hafa notið þess sem þau hafa haft hingað til. Ég vonast svo sannarlega til að þetta verði samþykkt.