140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[21:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er vísað í atkvæðagreiðslu á árinu 2005, hygg ég, þegar verið var að gera breytingar á gjafsóknarlögunum. Það sem ég stend frammi fyrir sem innanríkisráðherra og gæslumaður sjóða þar og gæslumaður jafnræðisreglunnar að gæta þess að þeir sem hafa minnst fjárráð og bágastan fjárhaginn njóti forgangs í þessu efni. Það er staðreynd að íslenska ríkið hefur verið að skera verulega niður öll útgjöld sín, líka á sviði réttarfarsmála og það hefur komið niður á þessu eins og svo mörgu öðru. Það er bara staðreynd. Þetta höfum við hér á Alþingi samþykkt. Þetta er veruleikinn. Ef við ætlum að rýmka um þannig að fólk fái gjafsókn óháða fjárhag en þá með tilliti til fordæmisgefandi mála o.s.frv., þá stenst það ekki sem hv. þm. Magnús Norðdahl sagði að þetta ætti ekki að bitna á þeim tekjulægstu sem nú nytu gjafsóknar. Það mun gera það nema við stóraukum fjárstreymi til þessa málaflokks. Þetta er sá veruleiki sem ég er að benda á.

Síðan verð ég að ítreka það sem ég sagði hér áðan að þau mál sem fá gjafsókn eru mannréttindamál og eru fordæmisgefandi þess vegna, sem eru forræðisdeilumálin, barnaverndarmálin og margs konar mannréttindamál önnur.