140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[12:37]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Á hverjum tíma er alltaf gert ráð fyrir fjármunum í samgönguáætlun til rannsóknar og undirbúnings jarðganga. Að þessu sinni er gert ráð fyrir því og hefur verið undanfarin ár. Slíkur undirbúningur og slíkar athuganir eiga á öllum tímum að vera í gangi. Stefnumótunin sem lýtur að því hvaða jarðgöng verða fyrir valinu á hins vegar heima í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þingsins. Þar á að taka yfirvegaða afstöðu til þess í ljósi þeirrar forgangsröðunar sem þingið sjálft hefur samþykkt en ekki að mínu mati með skyndihugdettum sem bornar eru fram í formi breytingartillagna á lokaspretti samgönguáætlunar eins og nú er gert.

Ég árétta það sem kom fram í máli mínu áðan, að umhverfis- og samgöngunefnd hefur tekið þessa breytingartillögu til yfirvegunar, að vísu var hún þá flutt af Kristjáni Þór Júlíussyni einum, en sú fyrri tillaga (Forseti hringir.) er efnislega samhljóða þessari. Samgöngunefnd sá ekki ástæðu til að fallast á þá breytingartillögu að svo stöddu.