140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[15:31]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu um að fella niður virðisaukaskatt á rafbílum, vetnisbílum og tengiltvinnbílum sem eru yngri en þriggja ára. Virðisaukaskatturinn sem felldur er niður má ekki nema hærri upphæð en 1.530 þús. kr. á raf- og vetnisbílum en 1.020 þús. kr. á tengiltvinnbílum sem eru ódýrari í innkaupum. Markmiðið er að flýta fyrir skiptum úr bensín- og dísilknúnum bílum yfir í umhverfisvænni bíla.

Frú forseti. Þetta er framsækin tillaga sem mun færa okkur í átt að grænu hagkerfi. Vandamálið er hins vegar að nýir umhverfisvænir bílar eru of dýrir fyrir meginþorra heimila í landinu sem glíma við sífellt þyngri greiðslubyrði, ekki síst af verðtryggðum fasteignalánum. Skattafslátturinn sem verður veittur þegar þetta frumvarp með breytingartillögum hv. efnahags- og viðskiptanefndar hefur verið samþykkt mun því aðeins nýtast tekjuháum einstaklingum sem reyndar eru ekki mjög fjölmennur hópur hér á landi eftir bankahrun og skattafslátturinn mun því draga lítið úr mengun af völdum útblásturs bíla.

Frú forseti. Það væri mun áhrifaríkara að lækka virðisaukaskattinn á umhverfisvænni vöru sem margir mundu kjósa að kaupa ef verð hennar lækkaði. Dæmi um slíka vöru eru margnota taubleiur en bleiukostnaður er þungur útgjaldaliður hjá fjölskyldum með ungabörn. Við hv. þm. Birkir Jón Jónsson viljum að þessi hópur, þ.e. fjölskyldur með ungabörn, fái notið skattafsláttarins en þessi hópur er afar ólíklegur til að geta til dæmis staðið í kaupum á nýjum rafbílum sem kosta um 5 milljónir í innkaupum. Við leggjum því til að margnota taubleiur sem núna eru í virðisaukaskattsþrepi 25,5% verði færðar niður í virðisaukaskattsþrepið sem er 7% og þá til þess að draga úr notkun einnota pappírsbleia.

Samkvæmt upplýsingum af vef Umhverfisstofnunar notar hvert barn á bilinu 5–6 þús. bleiur á fyrstu æviárum sínum og það eru um tvö tonn af sorpi. Það mun taka um 500 ár að eyða þessum tveimur tonnum úti í náttúrunni. Margir vitna í erlendar rannsóknir og segja að einnota pappírsbleiur og margnota taubleiur mengi álíka mikið, mengunin sé fyrst og fremst í framleiðslu einnota pappírsbleia en við notkun taubleia. Umhverfisstofnun bendir hins vegar á að í erlendum rannsóknum sé yfirleitt miðað við að verið sé að nota rafmagn við þvott á margnota taubleium sem framleidd eru með mengandi orkugjöfum en ekki grænni orku eins og hjá okkur. Það má segja að umhverfisáhrifin af þeirri rafmagnsnotkun sem fer í að knýja þær þvottavélar hér á landi og þvo þessar margnota taubleiur séu mun minni en í þeim rannsóknum sem vitnað er í til að rökstyðja það að það sé óþarfi að skipta úr einnota pappírsbleium yfir í margnota taubleiur. Ef taubleiur eru jafnframt þvegnar á réttan hátt og fólk notar umhverfisvottað þvottaefni er hægt að draga úr umhverfisáhrifum taubleia. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Þetta er ansi fróðlegt, jafnvel fyrir mig enda er ég af þeirri kynslóð sem notaði bara einnota pappírsbleiur. Ég verð að viðurkenna að ég hef haft einstaklega gaman af því að vinna að þessari breytingartillögu og kynna mér rökin með og á móti margnota taubleium sem kannski gerir það að verkum að ég skil núna betur unga foreldra með ungabörn sem eru að reyna að draga úr mengun og sóun og skipta yfir í margnota taubleiur. Það bendir margt til þess að notkun margnota taubleia sé umhverfisvænni, a.m.k. hér á landi, en notkun einnota pappírsbleia og því leggjum við hv. þm. Birkir Jón Jónsson til að margnota bleiur verði færðar úr virðisaukaskattsþrepinu 25,5% niður í 7%. Eins og ég sagði mun þessi lækkun fyrst og fremst lækka útgjöld heimila sem eru með ungabörn og mjög þunga greiðslubyrði af fasteignalánum.

Frú forseti. Ég hvet alla þingmenn til að samþykkja þessa breytingartillögu sem er mikið framfaramál og stuðningur við ungar fjölskyldur í landinu.