140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

loftslagsmál.

751. mál
[18:07]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Að lokinni þessari ræðu hlýt ég að spyrja: Hvað á hv. þingmaður nákvæmlega við? Hverjar af tillögum Samtaka atvinnulífsins telur hann að hér eigi heima? Af hverju flytur hv. þingmaður ekki breytingartillögu við málið? Af hverju skilar hv. þingmaður ekki minnihlutaáliti úr því að það er eins gallað og hann lætur í veðri vaka?

Það er ljóst, og framsögumaður nefndarinnar hv. þm. Þuríður Backman rakti það, að nefndin er ekki ánægð með stöðu steinullarverksmiðjunnar. Við fórum mjög vandlega yfir þann þátt að hv. þingmanni viðstöddum og við sáum enga leið út úr því í svipinn og ákváðum þess vegna að afgreiða það eins og hér er gert, með því að beina því til hæstv. umhverfisráðherra að reyna að finna lausn á því sérstaka vandamáli, sem við tökum öll undir. Annað kannast ég ekki við að sé stórkostlegur vandi. Hv. þingmaður talaði tvisvar eða þrisvar um stöðu skógarbænda. Ég vil því spyrja hann í fullri einlægni og alvöru hvort hann hafi sérstakar áhyggjur af stöðu skógarbænda þangað til komið er viðskiptakerfi með losunarheimildir í smásölu. Ég segi þá enn einu sinni það sem ég sagði í nefndinni að ef skógarbændur eiga að fá plús fyrir það loft sem skógar þeirra hreinsa þá hljóta mjólkurbændur og nautgripabændur að fá mínus fyrir það loft sem kemur úr kýrrössunum og þeir spilla. Þangað til slíkt kerfi er komið á verður ekki hægt að taka mikið mark á umkvörtunum hv. þingmanns um stöðu skógarbænda þótt eðlilegt sé að þeir spekúleri í stöðu sinni upp á framtíðina að gera.