140. löggjafarþing — 127. fundur,  19. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um veiðigjöld eftir að nefndin fjallaði um það að nýju eftir 2. umr.

Eins og fram kom í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar við 2. umr. gagnrýndu nokkrir umsagnaraðilar og álitsgjafar þeirra nokkur ákvæði frumvarpsins og töldu þau ýmist of óskýr til að teljast viðhlítandi heimildir til gjaldlagningar, að þau hefðu einkenni afturvirkni eða að í þeim fælist óheimilt framsal skattlagningarvalds. Sams konar sjónarmið komu fram í máli þingmanna við 2. umr.

Nefndin tók framangreind atriði til frekari skoðunar. Þrátt fyrir að meiri hluti nefndarinnar hafi framkvæmt ákveðna skoðun á þessum atriðum fyrir 2. umr. og komist að þeirri niðurstöðu að áhyggjur umsagnaraðila væru óþarfar telur meiri hlutinn rétt að fara fram af varfærni þar sem undir eru umtalsverðir hagsmunir ríkissjóðs annars vegar og réttindi sem njóta verndar VII. kafla stjórnarskrár hins vegar.

Í því ljósi leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi leggur meiri hlutinn til að efni 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins verði breytt. Í þeirri málsgrein er lagt til að ráðherra verði heimilað að tillögu veiðigjaldsnefndar að lækka eða undanþiggja sérstöku veiðigjaldi afla úr tilteknum fiskstofni sé sýnt að afkoma sé verulega lakari við þær veiðar en almennt gerist. Einnig megi ráðherra undanþiggja tilraunaveiðar sérstöku veiðigjaldi sé sýnt að renta þeirra veiða verði engin eða neikvæð. Bent hefur verið á að efni málsgreinarinnar feli ef til vill í sér of ríkt framsal valds til töku ákvarðana um breytingu eða niðurfellingu sérstaks veiðigjalds. Af þeim sökum leggur meiri hlutinn til að ráðherra verði gert að bregðast við tillögum veiðigjaldsnefndar um lækkun gjaldsins eða undanþágur frá greiðsluskyldu þess með því að leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.

Í öðru lagi, og þessu tengt, leggur meiri hlutinn til breytingar á 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins. Þar kemur fram að veiðigjaldsnefndinni sé meðal annars ætlað að gera tillögu um undanþágu frá álagningu sérstaks veiðigjalds, sbr. 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins sem var rakin að efni til hér að framan. Í því skyni að eðlilegt samhengi verði á milli skyldna veiðigjaldsnefndar og skyldu ráðherra til að leggja fram frumvarp um breytingar á veiðigjöldum leggur meiri hlutinn til að veiðigjaldsnefndinni verði meðal annars gert að gera tillögur til ráðherra um lækkun sérstaks veiðigjalds eða undanþágur frá greiðsluskyldu þess.

Í þriðja lagi leggur meiri hlutinn til að tveimur nýjum málsgreinum verði bætt við 4. gr. frumvarpsins með það að leiðarljósi að útfæra verkefni veiðigjaldsnefndar betur og rýmka skilgreiningu hlutverks hennar. Þannig verði ráðherra annars vegar gert skylt að gera þjónustusamninga við embætti ríkisskattstjóra, Fiskistofu og Hagstofu Íslands um öflun og úrvinnslu upplýsinga um rekstur og afkomu veiða og vinnslu sem veiðigjaldsnefnd þarf til að sinna hlutverki sínu. Við samningsgerðina telur meiri hlutinn eðlilegt að ráðherra taki tillit til verkefna þessara stofnana og þeirra lagaákvæða og starfsreglna sem um starfsemi þeirra gilda að öðru leyti. Þá leggur meiri hlutinn til að skýrt verði kveðið á um að fyrir þann hluta þeirra verkefna stofnananna sem fellur utan lögbundinna verkefna þeirra skuli greitt úr ríkissjóði. Hins vegar verði veiðigjaldsnefnd gert skylt að hafa viðvarandi könnun á því hvort haga megi öflun upplýsinga og úrvinnslu gagna þannig að sérgreina megi forsendur sérstaks veiðigjalds frekar en gert er ráð fyrir í frumvarpinu og þá helst útreikning rentu, t.d. eftir fisktegundum, útgerðarformum eða tegund aflaheimilda, og gera þá tillögur til ráðherra um breytingar á lögum, reglum eða þjónustusamningum telji veiðigjaldsnefndin tilefni til þess. Að sama skapi skal nefndin kanna útfærslur gjaldstofns veiðigjalda, m.a. hvort eðlilegt kunni að vera að breyta gjaldstofni veiðigjalda, svo sem þrengja hann þannig að gjald verði í öllum tilvikum lagt á landaðan afla, og kanna hvort nauðsynlegt geti reynst að gera breytingar á hlutfalli sérstaks veiðigjalds af gjaldstofni. Þá komi skýrt fram að veiðigjaldsnefndin geti við vinnu sína efnt til samstarfs við sérfræðinga og fagaðila á sviði útgerðar og fiskvinnslu þannig að tryggt verði að fagleg sérþekking hafi greiða leið inn í vinnu nefndarinnar.

Í fjórða lagi leggur meiri hlutinn til að nýrri grein verði bætt við frumvarpið þar sem kveðið verði á um skyldu til að reikna og birta árlega svokallaðan rentugrunn. Tilgangur hans verði að skapa nægilegan og skýran grundvöll til útreiknings rentunnar. Þannig leggur meiri hlutinn til að fest verði í lög skylda til að afla ákveðinna upplýsinga sem varða tekjur af fiskveiðum og fiskvinnslu, flokka upplýsingarnar eftir ákveðnum forsendum og birta þær opinberlega þannig að gjaldendum sérstaks veiðigjalds gefist færi á að leggja sjálfstætt mat á fjárhæð gjaldanna.

Í fimmta lagi leggur meiri hlutinn til breytingar á ákvæði frumvarpsins til bráðabirgða þannig að fyrsta álagningarár sérstaks veiðigjalds verði fjárhæð gjaldsins fest í krónutölu, einni fyrir botnfiskveiðar og annarri fyrir uppsjávarveiðar.

Álit meiri hlutans er að framangreindar tillögur til breytinga muni skapa traustari grundvöll til álagningar sérstaks veiðigjalds. Í fyrsta lagi er tekinn af allur vafi um að Alþingi ber að taka afstöðu til tillagna um lækkun eða undanþágur greiðsluskyldu veiðigjalda með lagasetningu á grundvelli frumvarps þess efnis frá ráðherra. Í öðru lagi verður hlutverk veiðigjaldsnefndar meðal annars skilgreint þannig að henni beri að veita ráðherra ráðgjöf um þörf fyrir lækkanir eða undanþágur frá greiðsluskyldu veiðigjalda sem ráðherra ber svo að útfæra í lagafrumvarpi. Telur meiri hlutinn að ætla megi að á ráðherra muni hvíla sú skylda að taka ríkt tillit til ráðgjafarinnar og því þurfi sterk pólitísk rök að koma fram hyggist ráðherra ekki fylgja ráðgjöf nefndarinnar. Í þriðja lagi verður veiðigjaldsnefndinni gert að festa í þjónustusamninga fyrirkomulag aðkeyptrar vinnu og aðstoðar, m.a. við öflun nauðsynlegra upplýsinga. Er sérstaklega hnykkt á því að ekki er ætlast til þess að á grundvelli slíkra samninga verði hægt að víkja lögbundnum skyldum gagnaðila nefndarinnar til hliðar.

Að lokum leggur meiri hlutinn til að fest verði í lagatexta skylda veiðigjaldsnefndar til að leita álits samráðsnefndar um veiðigjöld um fyrirhugaða ákvörðun um sérstakt veiðigjald. Í þessu felst að meiri hlutinn leggur einnig til að kveðið verði á um að Alþingi beri að kjósa nefnd fimm þingmanna sem fjalla skuli um fyrirhugaðar ákvarðanir veiðigjaldsnefndar og vera samráðsvettvangur vegna þeirra. Mun samráðsnefndin ef til vill leggja veiðigjaldsnefndinni til hugmyndir telji hún það henta. Er það þó skilningur meiri hlutans að veiðigjaldsnefndin skuli vera sjálfstæð í störfum sínum.

Sú gagnrýni kom fram á fundum nefndarinnar að sérstöku veiðigjaldi virðist ætlað að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlindar skapar en frumvarpið feli í sér töku veiðigjalds af afla sem veiddur er utan fiskveiðilandhelginnar án tenginga við milliríkjasamninga og geti þannig ekki talist veiddur úr sjávarauðlind í sameign þjóðarinnar, hvorki beint né á grundvelli samninga sem hafa í för með sér veiðar úr henni.

Meiri hlutinn fellst á framangreind rök og leggur til að sú breyting verði gerð á 6. gr. frumvarpsins að afli veiddur utan fiskveiðilandhelgi Íslands sem ekki fellur undir samninga við önnur ríki teljist ekki gjaldstofn sérstaks veiðigjalds. Með því móti verður slíkur afli, t.d. rækjuafli úr norðurhöfum, undanþeginn sérstaka veiðigjaldinu. Hið gagnstæða á við heyri slíkur afli undir samninga við aðrar þjóðir enda fela slíkir samningar jafnan í sér skipti eða gagnkvæmt framsal veiðiheimilda.

Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins skal sérstakt veiðigjald vera 70% af stofni gjaldsins eins og hann er skilgreindur í 9. gr. frumvarpsins að almennu veiðigjaldi frádregnu. Sú gagnrýni hefur komið fram í umsögnum margra umsagnaraðila, í máli gesta á fundum nefndarinnar og í umræðum nefndarmanna að gjaldhlutfallið sé of hátt og úr samhengi við hlutfall annarrar gjaldlagningar af hálfu ríkisins.

Meiri hlutinn bendir á að sjálft gjaldhlutfallið segi ekki nema hálfa söguna því að breytingar á afmörkun gjaldstofnsins kunna í raun að fela í sér lækkun sérstaks veiðigjalds. Allt að einu leggur meiri hlutinn til að gjaldhlutfallið verði lækkað í 65%. Vonast meiri hlutinn til þess að með því móti verði komið til móts við þá gagnrýni sem fram hefur komið, enda ætti slík lækkun að hafa bein áhrif á arð af fiskveiðum og vinnslu. Væntir meiri hlutinn þess að það svigrúm sem lækkunin gefur verði nýtt sjávarútvegsfyrirtækjum til uppbyggingar og framdráttar en verði ekki greidd út úr sjávarútvegsfyrirtækjum í formi arðs nema fyllstu varúðarsjónarmiða um áframhald viðvarandi reksturs hafi verið gætt.

Í III. kafla frumvarpsins er fjallað um álagningu og innheimtu veiðigjalda. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að gjöld vegna aflamarks sem úthlutað er 1. september falli í gjalddaga með þremur jöfnum greiðslum ár hvert, þ.e. 1. október sama árs, 1. janúar og 1. maí næsta árs. Samkvæmt 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar er gjalddagi veiðigjalda á landaðan afla einstakra tegunda sem ekki eru háðar aflamarki og á afla sem veiddur er við strandveiðar 1. október á því ári sem fiskveiðiári lýkur.

Á fundum nefndarinnar komu fram áhyggjur af því hve fáir gjalddagar veiðigjalda vegna aflamarks væru. Var bent á að gjaldendum yrði gert að greiða þriðjung veiðigjalda fiskveiðiársins aðeins mánuði eftir upphaf þess. Voru taldar líkur á að mörg útgerðarfyrirtæki yrðu þannig neydd til að fjármagna gjaldgreiðslur með lántökum sem hefðu óæskilegan fjármagnskostnað í för með sér. Í ljósi þessara athugasemda leggur meiri hlutinn til breytingar á 12. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi verði gjalddögum veiðigjalda fjölgað úr þrem í fjóra.

Í 3. málslið 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins segir að veiðigjöld séu ekki afturkræf þótt aflamark sé ekki nýtt. Efni þessa málsliðar hefur sætt nokkurri gagnrýni þar sem það er talið endurspegla ákveðinn ósveigjanleika gagnvart útgerðarfyrirtækjum og sé ekki í nægilegu samræmi við markmið laganna um gjald fyrir nýtingu sameiginlegrar auðlindar. Meiri hlutinn tekur undir þessa gagnrýni og leggur til að umræddur málsliður verði felldur brott úr frumvarpinu og að við 6. mgr. frumvarpsgreinarinnar bætist nýr málsliður sem taki af vafa um að endurgreiða beri sérstakt veiðigjald vegna úthlutaðs aflamarks sem ekki hefur verið nýtt.

Útfærsla lögveðsheimildar frumvarpsins er einföld. Meiri hlutinn leggur til að orðalag hennar verði endurskoðað til þess að færa efni hennar til samræmis við það sem gerst hefur í nýlegri löggjöf.

Að auki leggur meiri hlutinn til að í stað þess að miða við að gjaldendur hafi mánuð frá gjalddaga til að greiða veiðigjöld án þess að til þess komi að veiðileyfi skips falli niður hafi þeir mánuð frá eindaga.

Þær breytingartillögur sem hér hafa verið reifaðar leiða til nokkurrar lækkunar frá þeim veiðigjöldum sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Verða áætlaðar tekjur ríkissjóðs minni sem lækkuninni nemur. Lækkun veiðigjaldanna stafar einkum af þeim breytingum sem verða á ákvörðun rentu í fiskvinnslu, dregið er úr áhrifum hennar á veiðigjöldin og má sjá fyrir að þau verði mest í uppsjávarveiðum, enda hefur hlutur fiskvinnslunnar verið mikill á síðustu árum.

Auk framangreindra breytinga telur meiri hlutinn rétt að lengja aðlögunartíma að fullri gjaldtöku úr tveimur árum í fjögur ár og samhliða hefja álagningu sérstaks veiðigjalds á lægra hlutfalli rentu en miðað er við samkvæmt bráðabirgðaákvæði frumvarpsins.

Vegna þess hve langt er liðið á árið og að fyrirsjáanlegt er að veiðigjaldsnefnd samkvæmt 4. gr. frumvarpsins hafi skamman tíma til stefnu við ákvörðun gjalds fyrir næsta fiskveiðiár telur meiri hlutinn rétt að lögbinda sérstakt veiðigjald það ár.

Þrátt fyrir framangreinda breytingu er mikilvægt að veiðigjaldsnefndin verði skipuð hið fyrsta og hefji þegar störf með það að markmiði að öflun upplýsinga og úrvinnsla gagna verði sem best áður en nefndin gerir tillögur um gjöldin fyrir fiskveiðiárið 2013/2014.

Fiskveiðistjórn hefur á undanliðnum árum haft veruleg áhrif á byggðaþróun og atvinnuhætti víða um land. Það er skilningur meiri hlutans að tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum eigi meðal annars að renna í verkefni sem ætlað er að styrkja innviði, t.d. samgönguframkvæmdir, sem og verkefni sem ætlað verði að auka fjölbreytni starfa á landsbyggðinni. Meiri hlutinn bendir á að mikilvægt er að hluti veiðigjalda renni til byggðatengdra verkefna.

Með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til breytast veiðigjöldin verulega frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Þau munu áfram ráðast af þeim meginsjónarmiðum sem finna má í frumvarpinu og þeim gögnum sem það byggist á. Enn fremur munu þau í samræmi við frumvarpið ráðast mjög af þróun fiskverðs sem er ráðandi þáttur í myndun auðlindarentu. Þannig munu veiðigjöld fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 ráðast af þeim gögnum sem fyrir liggja um afkomu fiskveiða og fiskvinnslu á árinu 2010 og framreikningi á rentu þess árs til fyrsta ársþriðjungs 2012 með verðvísitölu sjávarafurða.

Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til breytist áætlun um tekjur ríkissjóðs frá því sem fram kom í frumvarpinu. Auk þeirra forsendna sem áætluð veiðigjöld byggjast á ráðast tekjur af þeim á áætluðum fiskafla. Eftirfarandi áætlun miðast við að heildarafli næstu ára samsvari meðalafla áranna 2001–2010 að viðbættum 30 þús. þorskígildistonnum. Er þá aðallega horft til aukins þorskafla og viðbótinni bætt þannig við meðalaflann. Samkvæmt því er áætlað að nettótekjur af veiðigjaldi á fiskveiðiárinu 2012/2013 verði 12,8 milljarðar kr.

Samkvæmt framansögðu er áætlað að nettótekjur ríkissjóðs vegna álagningar veiðigjaldsins verði þá þessir 12,8 milljarðar kr. Þó hefur verið bent á að mögulega kunni nettótekjurnar að hækka í allt að 13,8 milljarða vegna ýmissa óvissra þátta. Meiri hlutinn gerir ráð fyrir að verði nettótekjurnar meiri en 13,8 milljarðar muni ráðherra bregðast við sem og hlutast til um lækkun veiðigjalda sem því nemi.

Þar sem sjá má fyrir að margháttaður undirbúningur verði að eiga sér stað fyrir álagningu veiðigjalda leggur meiri hlutinn til að í stað þess að frumvarpið taki gildi 1. september næstkomandi taki það gildi þegar við samþykkt þess. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem ég hef kynnt og farið yfir.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. þingmenn Kristján L. Möller, Þuríður Backman, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir auk þess sem hér talar.

Ég hef kynnt breytingartillögur meiri hluta atvinnuveganefndar við frumvarp til laga um veiðigjöld fyrir 3. umr. eftir umfjöllun í þinginu og í nefndinni. Ég hef látið eiga sig að fara yfir þær breytingartillögur sem standa eftir og voru til umræðu við 2. umr. um málið og undirstrikað þær breytingar sem voru gerðar á málinu á fundi nefndarinnar á milli umræðna.

Ég tel að frumvarpið í þeim búningi sem það er komið í uppfylli þær kröfur sem gagnrýnendur hafa beint að því og haft um það að segja og það sé orðið vel ásættanlegt fyrir alla aðila, jafnt í sjávarútvegi sem í stjórnmálum að fallast á það hóflega veiðigjald sem hér er lagt til að verði lagt á sjávarútveginn að þessu sinni.