140. löggjafarþing — 127. fundur,  19. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:56]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Nú þegar þetta mál kemur til atkvæðagreiðslu við 3. umr. mun það taka nokkrum breytingum samkvæmt þeim tillögum sem meiri hlutinn leggur fram. Engu að síður er gjaldið ekki bara allt of hátt, það er reiknað eftir röngum aðferðum, gjaldið sem menn kalla auðlindagjald er ekkert auðlindagjald, þetta er ekki nein auðlindarenta. Þeir 12–14 milljarðar sem gjaldið mun skila í ríkissjóð eru hærri fjárhæð en samanlagður hagnaður allra sjávarútvegsfyrirtækja á síðasta ári. Með því að í lagaákvæðinu sem fylgir frumvarpinu er gengið út frá því að forsendur gjaldsins verði strax teknar til endurskoðunar eru stjórnarflokkarnir í raun og veru búnir að fallast á og viðurkenna að hér hefur verið rangt gefið frá upphafi. (Forseti hringir.) Það er fullkomin hneisa fyrir ríkisstjórnina hvernig þetta mál kemur inn í þingið, (Forseti hringir.) hvaða meðferð það hefur fengið í þinginu og hvernig það fer út úr þinginu.