140. löggjafarþing — 128. fundur,  19. júní 2012.

fundarstjórn.

[23:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég get staðfest það sem hv. þm. Mörður Árnason sagði að meiri hlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd gekk að mörgu leyti langt í að teygja sig til móts við þau gagnrýnisatriði sem komu fram varðandi það frumvarp sem hér er til umræðu. Það tókst ekki að lenda því þrátt fyrir ýmsar tilraunir. En staðreyndin er sú að heildarendurskoðun náttúruverndarlaga er í bígerð og er boðuð á næsta þingi þannig að ákvæðin sem voru í þessu frumvarpi hljóta að koma til skoðunar innan fárra mánaða. Þeir hagsmunir sem tengjast því að afgreiða þetta mál núna eru þannig ekki verulegir. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að tiltekinn gagnagrunnur eða kortagrunnur hjá Landmælingum Íslands tefst eitthvað miðað við það sem áður var áformað en hagsmunirnir eru ekki stærri. Utanvegaakstur er bannaður í dag (Forseti hringir.) og verður það áfram hvað sem líður þessu tiltekna frumvarpi.