141. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2012.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:51]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Kæru landsmenn. Ég vil byrja á að senda kveðju til þeirra sem nú glíma við erfiðleika í kjölfar veðurofsans fyrr í vikunni. Hugur okkar allra er hjá ykkur.

Forseti. Fyrir rétt tæpum fjórum árum fór þjóðfélagið á hliðina. Við gættum ekki að okkur og steyttum á skeri með hörmulegum afleiðingum. Mörg okkar sjá ekki enn fram úr brimsköflunum. Margir hafa misst allt sitt, vinnuna, húsnæðið og jafnvel lífsförunautinn. Og óréttlætið svíður. Öll berum við einhverja ábyrgð. Þó voru það bara örfáir sem áttu beinan þátt í að setja Ísland á hausinn. En gleymum ekki hverjir það voru. Glæpur okkar hinna var að treysta og trúa þegar við hefðum átt að spyrja gagnrýninna spurninga. Við treystum stjórnvöldum. Við treystum bönkunum, fjölmiðlunum og fræðimönnunum. Við trúðum lygunum. Og kannski vildum við bara trúa. Kannski vildum við trúa því að við, örþjóð í úthafi, værum best í heimi. Stæðum öðrum framar. Værum yfirburðafólk. Og þótt eitthvað kæmi ekki heim og saman í þeirri heimsmynd var engin ástæða til að rugga bátnum. Það var fínt að trúa þessu bara.

En, ágætu landsmenn, ég ætla ekki að sóa tíma ykkar í að tala um þær hörmungar sem við eigum öll sameiginlegar. Ég veit að þið þekkið þær og þið vitið hvaða toll þær hafa tekið. Þið vitið að fjármálakerfið hefur verið endurreist á kostnað skuldsettra heimila sem gert er að borga af stökkbreyttum lánum. Og þið vitið að þetta er hvorki sanngjarnt né réttlátt og það er óskiljanlegt hvernig ríkisstjórn sem kennir sig við jöfnuð og velferð getur stært sig af því hvernig hér hefur verið haldið á málum.

Það sem mig langar að tala um hér í kvöld er það jákvæða sem hrunið hefur haft í för með sér. Hrunið var ekki alslæmt. Hrunið vakti þjóð sem flaut sofandi að feigðarósi. Venjulegt fólk sem hafði ekki tekið þátt í stjórnmálum með öðrum hætti en að mæta á kjörstað á fjögurra ára fresti fór að láta sig málin varða. Við áttuðum okkur mörg á því að það mundi enginn gera þetta fyrir okkur. Við þyrftum að standa upp og gera hlutina sjálf. Ef við ætluðum að búa í bærilegu samfélagi þyrftum við að stíga fram. Hugsa. Lesa. Deila. Skrifa. Benda á kosti og galla. Gagnrýna. Hrópa. Og jafnvel kasta eggi. Og við höfðum engu að tapa.

Á síðustu fjórum árum hefur líf flestra okkar gjörbreyst. En ekki bara til hins verra. Það er sárt að hafa verið blekktur. Það er vont að horfast í augu við að stjórnvöld leyndu okkur upplýsingum og lugu til um ástandið. En það er gott að nú vitum við betur. Og við ætlum ekki að láta þetta gerast aftur. Aldrei aftur.

Í kjölfar hrunsins spruttu fram ótal hópar og einstaklingar sem létu sig málin varða. Okkur er nefnilega ekki sama í hvernig samfélagi við búum. Við áttuðum okkur á að enginn mundi gera þetta fyrir okkur. Okkar var að breyta ef við ætluðum ekki bara að endurreisa gamla Ísland úr fúnum spýtum. Við sem hingað til höfðum staðið á hliðarlínunni þurftum að taka okkar pláss í samfélaginu, í umræðunni, á netinu, í stjórnmálunum. Og baráttan hefur skilað árangri þótt ég viðurkenni að þegar kemur að sumum málaflokkum verð ég vonsvikin og döpur. En annars staðar er uppskeran rík og okkur ber að fagna hverjum áfangasigri.

Ein af kröfunum eftir hrun var að þjóðin skrifaði sína eigin stjórnarskrá. Það var ein af mínum kröfum. Mér fannst mikilvægt að við tækjum grundvöll samfélagsins til rækilegrar endurskoðunar. Ísland var eitt sinn nýlenda. Í hundruð ára höfðu landsmenn lítið um sín mál að segja og biðu eftir boðum að utan. Kannski er ekki óeðlilegt að það taki langan tíma fyrir þjóðina að átta sig á að uppspretta valdsins er raunverulega hjá fólkinu sjálfu í hverju lýðræðisríki.

En nú uppskerum við. Eftir þúsund manna þjóðfund, eftir vandað starf stjórnlaganefndar þar sem saman komu bæði sérfræðingar og áhugafólk, eftir stjórnlagaráð, valið af þjóðinni sjálfri, eftir opið ferli sem allir Íslendingar hafa getað átt aðkomu að, lítur dagsins ljós frumvarp sem borið verður undir þjóðina þann 20. október. Nú fáum við að svara því á hvaða grunni við viljum að samfélag okkar hvíli.

Viljum við að náttúruauðlindir verði í þjóðareigu? Viljum við jafnt vægi atkvæða? Viljum við geta valið fulltrúa okkar á Alþingi sjálf í persónukjöri þvert á lista? Og það sem kannski er mest um vert: Viljum við öll geta haft eitthvað um málin að segja á milli kosninga? Viljum við geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál án þess að það sé háð duttlungum bóndans á Bessastöðum? Og ef frumvarp stjórnlagaráðs verður að lögum getur fólkið í landinu haft beina aðkomu að lagasetningu með því að leggja fram þingmál á Alþingi sem erfitt yrði fyrir þingið að hundsa.

Við áttum okkur kannski ekki á því fyrr en einhver útlendingur hefur orð á því með aðdáun í röddu að við erum heppin. Það er ekki sjálfgefið, því miður, að allri þjóðinni sé boðið að segja skoðun sína á fyrirhuguðum breytingum á stjórnarskrá. Og það er ekki sjálfgefið að löggjafarvaldið gangist við vanhæfni sinni til að semja lög um stjórnskipan ríkisins og feli þjóðkjörnu ráði að semja frumvarp. Það sanna dæmin því að þar til nú hefur heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar einmitt verið svæfð í nefnd í áratugi.

Við vöknuðum af værum blundi og það var gott. Við áttuðum okkur á því að í því að vera borgari fælust ekki einungis réttindi heldur einnig skyldur. Okkur ber skylda til að veita stjórnvöldum aðhald og vísa þeim veginn. Okkur má aldrei aftur vera sama. Við megum aldrei aftur láta stjórnvöld komast upp með að ljúga að okkur. Þess vegna verðum við að mæta í þjóðaratkvæðagreiðsluna þann 20. október og segja okkar skoðun. Framtíð okkar allra er í húfi.

Kæra þjóð. Nú fer í hönd kosningavetur. Nú eru flokkarnir að móta sína stefnu. Nú er lag. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá er tækifærið núna til að taka þátt og hafa áhrif á stefnumótun sem á sér stað hjá nýjum framboðum jafnt og þeim gömlu. Einn nýju flokkanna heitir Dögun – samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Þar sameinast Hreyfingin, Borgarahreyfingin, Frjálslyndi flokkurinn og einstaklingar úr ýmsum áttum, m.a. úr stjórnlagaráði, undir sama merki. Starf Dögunar er öllum opið og ég hvet þá sem vilja raunverulegar breytingar og vilja búa í réttlátu samfélagi til að taka þátt og finna hugmyndum sínum farveg innan okkar raða.

Sýnum að okkur er ekki sama. Drögum upp skýra mynd af því sem við viljum sjá. Það þarf hugrekki til að takast á við nýtt hlutverk og það þarf kjark til að ráðast í breytingar. Við gætum þurft að stíga út fyrir þægindarammann og laga okkur að nýjum en spennandi aðstæðum. Það er þörf á góðu, skynsömu en umfram allt venjulegu fólki í stjórnmálin, fólki sem veit hvað það er að sjá lánin sín stökkbreytast, þekkir mótbyr og kann til verka. Við getum ekki stólað á að pólitíkusar eða stjórnmálaflokkar sem spruttu upp úr jarðvegi gamla Íslands stuðli að heilbrigðum breytingum. Til að þær nái fram að ganga þurfum við að láta okkur málin varða og taka þátt.

Örlög þess fólks sem ekki skiptir sér af stjórnmálum eða nýtir lýðræðislegan rétt sinn til þátttöku eru að fólk sem er verra en það sjálft hefur með mál þess að gera. Látum það ekki henda okkur.