141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:59]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn jafnaðarmanna birtir nú fjárlagafrumvarp sitt fyrir árið 2013, síðasta fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar í bili. Fram undan eru kosningar næsta vor og því ber að sjá hverjir munu halda um ríkisfjármálin næstu fjögur árin.

Það er hins vegar ánægjulegt að standa hér og bera fram þetta fjárlagafrumvarp vegna þess að það birtir í raun og veru tvennt. Það birtir í fyrsta lagi þann skýra árangur sem við jafnaðarmenn og vinstri menn höfum náð við stjórn ríkisfjármála undanfarin ár. Við höfum náð jöfnuði í ríkisrekstri. Hér hefur verið um að ræða samhent átak þjóðar og þings til að minnka halla ríkissjóðs, ná jafnvægi á nýjan leik og fara að greiða niður skuldir sem mynduðust við efnahagshrunið. Í öðru lagi birtir þetta fjárlagafrumvarp áherslur okkar jafnaðarmanna. Það sýnir hvar við mundum vilja setja peninginn hefðum við efni á því að styrkja ákveðna þætti velferðar, hvar við mundum vilja innspýtingu í atvinnulífið og til hvaða verkefna við mundum vilja horfa í framtíðinni verðum við áfram við stjórn.

Það er ljóst að langstærstan hluta þeirra kjaraskerðinga sem urðu í kjölfar hrunsins má rekja til verðlagshækkana vegna gengisfalls krónunnar og hafa rannsóknir bent til að einn veikasti hlekkurinn í endurreisninni sé nú greiðsluvandi barnafjölskyldna. Því er að finna í þessu frumvarpi þá ætlun okkar jafnaðarmanna að hækka barnabætur verulega en barnabótakerfið er skilvirkt tæki til lífskjarajöfnunar.

Við sjáum einnig að fjárfestingaráætlun okkar jafnaðarmanna er hugsuð í þeim tilgangi að ýta undir fjárfestingar á komandi árum og skjóta stoðum undir sjálfbæran hagvöxt, þ.e. hagvöxt sem á sér stoð í atvinnulífinu en er ekki byggður á lántöku. Hér verður um að ræða hækkun frumgjalda frá fjárlagafrumvarpinu vegna framlaga til sérstakra áherslumála ríkisstjórnarinnar. Við sjáum 3,8 milljarða renna til fjárfestingaráætlunarinnar og 5,7 til annarra áherslumála sem skiptast þannig að 2,5 milljarðar renna til hækkunar barnabóta, 1 milljarður til hækkunar vaxtabóta, 800 milljónir til Fæðingarorlofssjóðs, 1 milljarður rennur til hækkunar á framlögum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og loks 400 milljónir til aukinna framlaga í sóknaráætlanir landshluta.

Það er ljóst, virðulegi forseti, að allir helstu tekjustofnar ríkissjóðs gáfu eftir við efnahagsfallið og eru sumir tekjustofnar ríkissjóðs enn aðeins brot af því sem áður var. Að því gefnu að fjármagna þurfti útgjöld ríkisins og vexti af þeim skuldum sem urðu til við efnahagshrunið þurfti að horfa til nýrra möguleika til að afla ríkissjóði tekna, annars hefði þurft að ganga enn lengra í niðurskurði. Það var val okkar jafnaðarmanna að frekar en að hækka um of þá skatta sem fyrir voru þá höfum við farið nýjar leiðir til að afla ríkinu tekna með hliðsjón af áherslum okkar á að auka tekjujöfnuð meðal landsmanna og styðja við hagvöxt. Það sjáum við t.d. birtast í veiðigjaldi á sjávarútveg þar sem þjóð fær hluta af þeim arði sem sjávarauðlindin skapar og við sjáum það einnig í áherslum okkar í tekjuskattsbreytingum sem leiða til þess að stór hluti þjóðarinnar, eða 60% einstaklinga sem greiða tekjuskatt, greiða lægra hlutfall af tekjum sínum í tekjuskatt eftir hrun en fyrir hrun.

Það er ljóst að þeir skattstofnar sem héldu úti rekstri ríkissjóðs að miklu leyti fyrir hrun verða lengi að ná sér á strik á nýjan leik. Þar má nefna virðisaukaskatt, fjármagnstekjuskatt, vörugjald af ökutækjum og stimpilgjald. Við sjáum það t.d. í þessu fjárlagafrumvarpi að tekjur af stimpilgjaldi og vörugjaldi á bifreiðum, sem voru að jafnaði ríflega 5% af skatttekjum ríkissjóðs á árinu 2005–2007, eru að jafnaði 1,3% á árinu 2009–2013. Við þessum tekjumissi þurfti að bregðast og það höfum við jafnaðarmenn gert. Það er því alger bábilja sem stjórnarandstæðingar hafa haldið fram í þessum sal að hægt hefði verið að komast í gegnum þá erfiðleika sem blöstu við ríkissjóði með því að komast hjá skattahækkunum eða breytingum í skattumhverfi. Það er í raun ótrúlega óábyrgt að þingmenn á Alþingi Íslendinga skuli fara í ræðustól og halda því að þjóðinni að við höfum getað komist í gegnum þessa erfiðleika án þess að breyta skattkerfi okkar. Um leið falla náttúrlega um sjálfar sig, virðulegi forseti, þær röksemdir sem hér hefur verið haldið fram um mikilvægi þess að fara að greiða niður skuldir ríkissjóðs því að til þess að við getum greitt niður skuldir ríkissjóðs þarf að afla ríkissjóði tekna og það höfum við jafnaðarmenn gert.