141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:54]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hvatninguna og óskir um að við ýtum á eftir hlutunum og reynum að koma verkum áfram. Ég get tekið heils hugar undir að það er mjög mikilvægt.

Hv. þingmaður nefnir þau atriði sem skipta mestu máli. Talað er um stöðu heilsugæslunnar. Þar hefur sem betur fer tekist að auka námsstöður og er verið að reyna að tryggja það að við fáum menntaða heimilislækna sem menn höfðu áhyggjur af að skortur yrði á. Það er auðvitað ekki séð fyrir endann á því en það skiptir miklu máli að fylgja því eftir.

Hv. þingmaður nefnir líka rafræna sjúkraskrá sem er sennilega ein mikilvægasta forsenda þess að við getum endurskipulagt og náð fram skilvirkum og hagrænum rekstri vegna þess að liggi upplýsingarnar fyrir er hægt að forðast endurtekningar og tvítekningar í kerfinu og tryggja öryggið, sem skiptir mjög miklu máli í því samhengi.

Sama er að segja varðandi tannverndina. Ég nefndi áðan að við hækkuðum gömlu gjaldskrána frá 2004 í vor þar sem menn borguðu 75% af kostnaðinum. Við hækkuðum gjaldskrána um 50%, sem er auðvitað umtalsvert þar sem menn fá þá töluvert hærri endurgreiðslur. Það var gert í samráði við vinnuhóp sem vinnur að því að skoða hvort við getum losað okkur út úr áratugalangri togstreitu sem verið hefur milli tannlækna og yfirvalda í sambandi við greiðslur og fyrirkomulag á þjónustu, sérstaklega við börn. Við gerðum átak sem einnig var fylgt eftir af fyrrverandi ráðherra. Við fylgdum því eftir skipulega að bjóða öllum þeim sem voru undir ákveðnum tekjumörkum að nýta sér tannlæknaþjónustu ókeypis. Alls nýttu 900 manns sér það fyrir ári síðan. Við brugðumst við með þessum hætti núna til að reyna að komast út úr þessu til lengri tíma.

Varðandi tækin er það eitt af því sem er inni í heilbrigðisáætlun. Þar eru menn að reyna að setja sér það markmið að á næstu árum náum við því að það verði sjálfsagður hluti í rekstri stofnunar að um það bil 1,8% af rekstri fari til tækja. Það er að vísu ekkert hátt, það er lægra en víða á Norðurlöndunum (Forseti hringir.) en þó væri það mikill áfangi að menn þyrftu ekki alltaf að vera að taka af tækjunum til að bjarga rekstri.