141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um brotthvarfið og ég held að þar séum við að hugsa í takt því að hluti af því verkefni sem við erum að undirbúa núna snýr einmitt að samstarfi grunn- og framhaldsskóla. Það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á að þar má ekki bara einblína á eitt skólastig, við þurfum að horfa á aðdraganda brotthvarfsins og horfa á þetta heildstætt.

Hins vegar, eins og ég sagði áðan, eru mjög margþættar ástæður fyrir brotthvarfi. Eitt af því sem hefur verið nefnt er til að mynda að atvinnuástand fyrir hrun hafi verið svo gott að nemendur hafi getað gengið úr skóla og fengið vinnu. Það ástand hefur auðvitað gerbreyst. Það kann að vera að það sé gild röksemd í ljósi þess að á Íslandi ljúka mjög margir námi en þeir ljúka því hins vegar ekki á réttum tíma. Við erum með óvenjulega opið skólakerfi þar sem fólk sækir sér nám á ólíkum aldri, en það gerir hins vegar að verkum að skilvirkni kerfisins verður minni en ella. Þetta er eitt af því sem OECD bendir líka á í greiningu sinni.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um stofnkostnað Menntaskólans í Reykjavík. Það er rétt að við höfum verið með ákveðna uppbyggingaráætlun í gangi varðandi framhaldsskóla í Reykjavík. Það var gert samkomulag á sínum tíma við Menntaskólann við Sund, Fjölbrautaskólann við Ármúla og Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Nú er viðbyggingu við FB lokið og sömuleiðis FÁ og yfir standa framkvæmdir við MS. Kvennaskólinn í Reykjavík var hins vegar verst settur framhaldsskóla í Reykjavík í húsnæðismálum þannig að þegar sá möguleiki kom upp að nýta húsnæði sem fyrir var í gamla Miðbæjarskólanum var ákveðið að fara í það verkefni. Ég held að það hafi tekist mjög vel og brugðist þar við þeim vanda sem brýnastur var. En ég tek undir með hv. þingmanni að aðstaða Menntaskólans í Reykjavík er núna þannig að það skiptir miklu máli að fara að skoða þær framkvæmdir. Þær hafa að sjálfsögðu verið kynntar í ráðuneytinu og eru mjög umfangsmiklar. Ég mundi því líta svo á að þar þurfi bara að taka sérstaka ákvörðun um að fara í uppbyggingu (Forseti hringir.) á þeim reit við Menntaskólann í Reykjavík, það fer að verða það verkefni sem ég mundi segja að væri (Forseti hringir.) næst á döfinni í Reykjavík.