141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:56]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Varðandi menntamálin langar mig að byrja á að fagna því að hér sé verið að leggja til 250 millj. kr. vegna stækkunar verknámsaðstöðu Fjölbrautaskóla Suðurlands. Löngu er kominn tími til að ráðast í það mikilvæga verkefni. Sveitarfélögin á Suðurlandi hafa lagt fyrir fjármuni til að hefja það starf og vonandi verður þessi aðstaða tekin í notkun hið fyrsta.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Hér kemur fram að gert er ráð fyrir hækkun á framlögum til sjóðsins. Það kemur jafnframt fram, í umfjöllun í fjárlagafrumvarpinu um c-liðinn, að lækkun lánveitinga hafi numið 6,5% vegna þess að lánþegum hafi fækkað frá forsendum fjárlaga 2012. Mig langar að vita hvort hæstv. ráðherra kunni einhverjar skýringar á því hvers vegna lánþegum er að fækka.

Menntun er undirstaða þess að samfélag okkar blómstri. Eftir því sem fleiri mennta sig, eftir því sem menntunarstig í samfélaginu almennt eykst, eigum við von á auknum hagvexti. Það er beint samband þar á milli. Þess vegna eigum við að búa íslenskum ungmennum og þeim sem vilja mennta sig góða aðstöðu til að gera svo.

Mig langar einnig að spyrja hæstv. ráðherra vegna sjóðsins: Hvers vegna er gert ráð fyrir því að draga úr lánum til skólagjalda? Hvers vegna er farið í það og hvernig hefur sú ákvörðunartaka átt sér stað?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra út í atriði sem kom fram í spurningu annars hv. þingmanns. Hv. þm. Skúli Helgason, sem situr í nefndinni, rakti það að til stæði að breyta reglum sjóðsins á þann veg að hvetja námsmenn til að klára nám á réttum tíma. Ég sé ekkert um það í fjárlagafrumvarpinu. Er verið að breyta þessu og hver er þá kostnaður ríkisins vegna þeirrar breytingar? Er þá sú aukning í fjármunum sem hér er lagt til að lánasjóðurinn fái til komin vegna þessa verkefnis? Mér finnst umfjöllunin um lánasjóðinn óljós, ef þetta er málið er það að minnsta kosti ekki tiltekið þarna.