141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[12:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa spurningu en hún spyr út í fækkun lánþega. Skýringar sem ég hef á því eru í sjálfu sér ekki miklar af því að nemum á háskólastigi hefur fjölgað. Á árunum 2008–2012 hefur þeim fjölgað um 2.169. Í nýjustu útgáfu frá OECD, þar sem tölur eru reyndar ekki glænýjar, kemur fram að Ísland er með hlutfallslega flesta námsmenn í námi erlendis þannig að ekki erum við að horfa á fækkun námsmanna. Það kann hins vegar að vera að sjóðurinn hafi ofáætlað ætlaðan fjölda námsmanna. Eins og fram kemur miðast fjárframlögin við áætlun og gert var ráð fyrir verulegri fjölgun lánþega, meðal annars út frá þessu átaki Nám er vinnandi vegur. Sú áætlun virðist ekki hafa gengið eftir þó að námsmönnunum hafi ekki fækkað. Svo virðist því vera sem nemendur taki ekki lán. Þetta segi ég hins vegar án þess að vera búin að greina það nákvæmlega. Við þyrftum að fá frekari upplýsingar um þetta.

Hvað varðar skólagjaldalánin hefur verið rætt um það af okkar hálfu að styrkja frumgreinanám í auknum mæli af þeim heimildum sem við höfum yfir að ráða í verkefninu Nám er vinnandi vegur og draga þá fremur úr skólagjöldum í því námi. Það útskýrir þá hagræðingu sem væntanlega birtist þá í sparnaði hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Það ætti að koma út á eitt því að þá er verið að tala um að ríkið styrki það frekar með beinum hætti en í gegnum skólagjaldalán.

Varðandi þær breytingar sem hv. þingmaður nefndi þá er þar um að ræða breytingar sem hv. þm. Skúli Helgason hefur úr skýrslu sem var kynnt á vef ráðuneytisins um fyrirhugaðar breytingar á lánasjóðskerfinu. Við vinnum núna samkvæmt þeim en ekki er tímabært að ræða þær, tel ég, fyrr en frumvarpið kemur fram, (Forseti hringir.) sem vonandi verður í byrjun nóvember. Við vinnum einmitt að kostnaðargreiningu hvað þetta varðar en það snýr að hugmyndum sem komu fram (Forseti hringir.) hjá nefndinni um niðurfellingu hluta höfuðstóls lána ef nemandi lýkur námi á tilsettum tíma.