141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:42]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessi orð. Ég ítreka óskir um að hér skapist gott samstarf á milli stjórnarmeirihluta og stjórnarandstöðu um farsælar lyktir í umræðu um fjárlagafrumvarpið. Það eru hagsmunir okkar allra, Íslendinga, að vel takist til í þeim efnum. Ég held að það eigi við um okkur öll að við viljum gera tvennt í senn, halda vel utan um skattpeninga, fjármuni almennings, og varðveita og verja samfélagsþjónustuna í landinu.

Varðandi þann þáttinn hjá hv. þingmanni að framkvæmdum hafi verið frestað og að slíkt sé enn á döfinni er það ekki rétt. Það hefur verið ráðist í ýmsar samfélagslega mikilvægar framkvæmdir. Það hefur verið gerð breyting á lögum sem snúa að því að efla nýsköpun í atvinnustarfsemi í landinu. Nú er fyrirsjáanlegt, og það er gleðilegt, að við ráðumst í ýmsar stærri framkvæmdir í samgöngumálum sem hafa beðið. Að því leyti hefur hv. þingmaður rétt fyrir sér, við vildum ekki fara í framkvæmdir á þeirri forsendu að við lofuðum upp í ermina á okkur, sæjum ekki fyrir hvernig þær yrðu fjármagnaðar eða seildumst ofan í vasa skattborgara eða notenda samgöngukerfisins, eins og ýmsir voru með áherslur uppi um en til dæmis Félag íslenskra bifreiðaeigenda og hagsmunasamtök fyrir bíleigendur lögðust gegn. Ég tók á endanum undir með þeim þegar sýnt var hver viljinn var í þeim efnum.

Almennt séð (Forseti hringir.) sjáum við núna fram á betri tíð, einnig á sviði framkvæmdanna, í samgöngumálum, uppbyggingu fangelsismálanna og víðar.