141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[14:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina yfir málaflokk hennar, en ég verð að viðurkenna að þegar ég las þetta frumvarp varð ég fyrir afskaplega miklum vonbrigðum, sérstaklega hvað varðar einn þátt þess. Ég held að taka þurfi heiðarlega umræðu um það hvort leggja eigi Þjóðgarðinn Snæfellsjökul niður, hætta með hann. Ég held að það sé mikilvægt að ræða það, því að ég get ekki séð í þessu frumvarpi að neinum fjármunum eigi að verja til uppbyggingar þar.

Í ljósi þess er ágætt að minna á að þessi þjóðgarður hefur aldrei fengið stofnframlag. Hann var stofnaður árið 2001, átti tíu ára afmæli í fyrra og hæstv. ráðherra færði garðinum þá 10 millj. kr. gjöf fyrir hönd ríkisins eða þjóðarinnar, (Gripið fram í: Skattgreiðenda.) já, skattgreiðenda, sem var auðvitað fagnaðarefni. En það sem ég staldra sérstaklega við er að við erum með þrjá þjóðgarða — þjóðgarðinn á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarð og Þjóðgarðinn Snæfellsjökull — og mér finnst mjög bíræfið, svo ég noti það orð, að leggja til að veittar verði 100 millj. kr. í enn frekari uppbyggingu á Vatnajökulsþjóðgarði eftir það sem á undan er gengið. Það er meira að segja gengið svo langt að teknar eru 20 millj. kr. af Umhverfisstofnun sem á að millifæra beint á Vatnajökulsþjóðgarð, af 22 millj. kr. framlagi til viðhalds í þjóðgörðum sem fjármagnað er með tekjum af svokölluðum gistináttaskatti. Fyrir eru 10 millj. kr. sem eru eyrnamerktar Vatnajökulsþjóðgarði, 22 millj. kr. hjá Umhverfisstofnun sem þeir setja í ýmis önnur verkefni en nú á að taka 20 millj. kr. út úr Umhverfisstofnun til að setja beint inn í Vatnajökulsþjóðgarð. Þess vegna segi ég að við þurfum að taka mjög heiðarlega umræðu um það hvort leggja eigi Snæfellsjökulsþjóðgarð niður. Það sýnist mér að minnsta kosti endurspeglast í þeim framlögum sem hér eru og þá virðingu sem honum er sýnd í þessu frumvarpi.

Ég vil líka segja að það er mjög merkilegt að hér skuli einmitt eiga að verðlauna skussana, og það eru kannski skýr skilaboð frá hæstv. ráðherra. Af hverju segi ég þetta? Það er vegna þess að Vatnajökulsþjóðgarður var ekki nema 170 millj. kr. í mínus við síðustu áramót, þ.e. vegna framúrkeyrslu. Þar er búið að eyða peningum sem ekki eru heimildir fyrir frá Alþingi. Það á að verðlauna skussana sem fara ekki eftir þeim framlögum sem samþykkt eru á Alþingi.

Þetta er líka umhugsunarvert vegna þess að Snæfellsjökulsþjóðgarður er í raun eini þjóðgarðurinn sem má segja að sé í vernd og skjóli ráðherrans því hinir eru með sjálfstætt starfandi stjórnir og við þekkjum hvernig það er. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að þetta er gert eina ferðina enn? Eru einhverjar breytingar á þessu í farvatninu?