141. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[17:03]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég er ósammála því að staða ferðaþjónustu á Íslandi sé slík að hægt sé að líta svo á að heppilegt og eðlilegt sé að hækka þessar álögur. Þvert á móti er alveg ljóst að ráðast þarf í töluvert miklar fjárfestingar í þessari grein. Þessi aðgerð dregur úr möguleikum greinarinnar til að gera það, ég held að það sé alveg ljóst.

Fram kom í máli hæstv. fjármálaráðherra, í umræðu við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, að búast mætti við að þessi aðgerð mundi draga úr fjölgun ferðamanna til Íslands. Ríkisstjórnin gerir sér með öðrum orðum grein fyrir því að þær tekjur sem við annars fengjum vegna fleiri ferðamanna verða minni. Reyndar hafa forustumenn þessarar greinar bent á að það sé ekkert víst að þessar tekjur skili sér þegar upp verður staðið, að þetta muni ekki hafa jákvæð áhrif fyrir þjóðarhag, fyrir þjóðarbúið í heild, þegar upp verður staðið.

Enn og aftur: Þegar um er að ræða endurgreiðslurnar til kvikmyndageirans er það vegna þess að hingað koma erlend fyrirtæki með viðskipti sín. Verið er að ýta undir að þau komi með því að veita umræddan skattafslátt. Nákvæmlega sömu rök eiga við um ferðaþjónustuna. Við þurfum svo mjög á því að halda að fjölga störfum. Við þurfum alveg sérstaklega á því að halda hér í Reykjavík. Hér er of mikið atvinnuleysi og það hefur verið langvarandi. Þarna er um að ræða atvinnugrein sem veitir störf.

Ég spyr hæstv. ráðherra, sem er líka þingmaður fyrir þetta kjördæmi, Reykjavík, hvort ekki sé ástæða til að við þingmenn kjördæmisins beitum okkur gegn þessari hækkun, hvort hæstv. ráðherra sé ekki tilbúinn til að leggja okkur lið í því að fjölga störfum á þessu svæði, þannig að hægt sé að vinna á því atvinnuleysi sem allt of margir Reykvíkingar þurfa því miður að þola.