141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

mat á umhverfisáhrifum.

87. mál
[16:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Það er rétt, eins og komið hefur fram, að málið hefur áður komið inn í þingið og frumvarpið sem nú liggur fyrir er að því er virðist í lítið breyttri mynd. Það er ánægjulegt að hæstv. umhverfisráðherra gat komið með málið þetta snemma inn í þingið nú í haust þannig að nefndin hafi góð tök á að vinna það og geti farið yfir það með uppbyggilegum en um leið gagnrýnum hætti. Ég ætla ekki að fara efnislega í málið að svo stöddu. Ég vildi bara geta þess í samhengi við þá umræðu sem hér hefur átt sér stað um flækjustigið í löggjöfinni á þessu sviði að ég teldi að einhvers konar heildarúttekt eða yfirferð yfir ferlana á þessu sviði þyrfti að eiga sér stað. Þá væri auðveldara fyrir okkur sem tökum þátt í að samþykkja lög um þetta efni fyrir stjórnvöld, sem eiga að fylgja þeim eftir, og fyrir þá aðila sem að málinu koma, hvort sem um er að ræða sveitarfélög, fyrirtæki, einstaklinga eða almenning, að átta sig á því hvaða skilyrðum þarf að framfylgja til að tilteknar framkvæmdir eða aðgerðir fái lögformlega meðferð. Þá verði í fyrstu reynt með einhverjum hætti að greina hvernig staðan er í dag og síðan verði í framhaldinu leitað leiða til að einfalda ferlið. Ég held að þó að við séum öll sammála um að mikil þörf sé á því að málsmeðferð á þessu sviði sé vönduð, að ákvarðanir séu ekki teknar nema að vel athuguðu máli o.s.frv., sé hægt að ná þeim markmiðum án þess að við búum við það sem ég vil leyfa mér að kalla mikið flækjustig löggjafar og regluverks á þessu sviði.

Ég held að við getum haldið í vandaða og góða málsmeðferð en þó einfaldað ferla, einfaldað regluverk. Ég held að það sé afar mikilvægt.

Ég hef setið um nokkurt skeið í umhverfisnefnd, nú í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég verð að játa að með hverju árinu sem líður á ég sem þingmaður, sem er þó með bakgrunn í lögfræði, erfiðara með að átta mig á hvernig regluverk á þessu sviði virkar. Mér finnst á hverju hausti og hverju vori að við séum að fjalla um nýjar reglur, nýja löggjöf, ný frumvörp sem horfa því miður flest í þá átt að flækja stöðuna frá því sem verið hefur en eru ekki til einföldunar. Ég vona að við getum náð sátt um að fara fyrst í einhvers konar greiningarvinnu og að síðan gerum við tillögur að einföldun í þessum efnum. Ég er sannfærður um að það er hægt að ná slíkum markmiðum án þess að fórna markmiðum um góða málsmeðferð því að málsmeðferðin verður ekkert endilega betri þó að stofnanir og aðilar úti í bæ standi endalaust í bréfasendingum og skýrslugerð.