141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

[11:39]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Frú forseti. Ef þjóðin á að hafa forsendu til að taka ákvörðun um framtíðargjaldmiðil þarf hún að vita hvernig á að leysa 1.200 milljarða snjóhengjuvanda. Snjóhengjan er eignir áhættufjárfesta sem lánaðar voru til einkaaðila sem margir hverjir eru gjaldþrota í dag. Á að leyfa snjóhengjunni að fara út úr hagkerfinu með miklu gengishruni krónunnar eða á að gera snjóhengjuna að skuld skattgreiðenda með erlendu láni hjá Evrópska seðlabankanum til að fjármagna útstreymi við upptöku evrunnar? Hvað með upptöku nýkrónu á mismunandi skiptigengi til að skrifa niður froðueignir í snjóhengjunni?

Frú forseti. Þessum spurningum er ekki svarað í skýrslunni. Þjóðin þarf að ákveða hvort hún vilji aðlögun að tíðum sveiflum í raunhagkerfinu í gegnum annars vegar fjöldaatvinnuleysi eins og á evrusvæðinu eða launalækkun vegna gengishruns krónunnar. Almenn launalækkun tryggir að allir, ekki bara þeir sem missa vinnuna, taka á sig byrðar í niðursveiflu. Það er svolítið meiri jafnaðarmennska í því.

Í skýrslunni kemur fram að framboðsskellir séu helsti drifkraftur hagsveiflunnar. Samkvæmt kenningunni um hagkvæm myntsvæði eru því líkur á að innlendar hagsveiflur aukist við aðild að evrusvæðinu þar sem innlendir framboðsskellir hafa lítil tengsl við slíka skelli á evrusvæðinu.

Frú forseti. Óstöðugleiki í efnahagslífinu gæti því aukist við upptöku evrunnar. Horfumst í augu við raunveruleikann.