141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

frádráttur á tekjuskatti vegna afborgana af fasteignalánum einstaklinga.

4. mál
[14:16]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta yfirferð, nokkurs konar prófarkalestur, á þessari tillögu. Flest ef ekki öll atriði sem hv. þingmaður nefndi eru hlutir sem við höfum velt fyrir okkur. Það má vel vera að kveða þurfi skýrar á um eitthvað í tillögunni. Það er til dæmis rétt að betra væri að nota orðið „greiðslur“ frekar en orðið „afborganir“, þannig að ekki fari á milli mála við hvað er átt, að átt sé við vextina líka.

Hv. þingmaður nefndi að hindra þyrfti menn í að taka ný lán og nota þau til að greiða niður fyrri lán. Það er ástæðan fyrir því að í tillögunni segir, með leyfi forseta:

„Miðað yrði við breytingu á höfuðstól skulda samkvæmt skattframtali.“

Því var ætlað að reyna að hindra að menn gætu notað þá aðferð sem hv. þingmaður lýsti, ef til vill þarf einhverjar frekari varúðarráðstafanir til þess.

Hugsunin er að sjálfsögðu fyrst og fremst sú að koma til móts við þá sem eru með verðtryggð lán, eins og segir í greinargerðinni, það þætti hv. þingmanni eflaust betra að kæmi fram í tillögunni sjálfri. Þó verðum við að hafa í huga að um er að ræða tillögu um að ráðherra verði falið að útfæra frumvarp. Vonandi tekur ráðherrann mið af greinargerð auk tillögunnar.

Hv. þingmaður nefndi tímabil, þ.e. hvenær lánin hafi verið tekin. Það er alveg réttmæt gagnrýni. Þetta er einmitt vandamál í öllum tilraunum okkar til að taka á skuldavandanum. Finnist góð lausn á þessu, þar sem hægt er að koma sérstaklega til móts við fólk sem tók lánin á ákveðnum tímapunkti, má segja að það sé réttlátt. Spurningin er: Er það of flókið? Er hægt að gera það? Ég er svo sannarlega til í að skoða leiðir til þess.

Fleiru (Forseti hringir.) næ ég ekki að svara í þessu andsvari, frú forseti.