141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

almenn niðurfærsla á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila og afnám verðtryggingar.

5. mál
[15:05]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafði ekki tíma til að tala um hitt tæknilega atriðið sem ég hef áhyggjur af þannig að ég er komin hingað aftur. Atriðið er þessi fjármögnun með sérstöku vaxtaálagi. Það mun auðvitað þýða að vaxtastigið hækkar á fasteignalánum sem mörg heimili munu ekki ráða við. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki of skammur tími að borga þennan afskriftasjóð niður á 25 árum. Af hverju var ekki farið í 40 ár? Ég held sem dæmi að flest fasteignalán séu til 40 ára og þá væri náttúrlega hægt að lækka þetta vaxtaálag sem á að vera 0,25% í byrjun og lækka síðan.

Ég velti líka fyrir mér hvort ekki sé nóg að vera með þennan skatt á þessar innlánsstofnanir sem fengu eignir sínar niðurskrifaðar þegar þær voru fluttar úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju, jafnframt fyrir lífeyrissjóðina að hafa fengið þennan afslátt sem var um 33 milljarðar. Þarf nokkuð að vera með þetta sérstaka vaxtaálag til að fjármagna afskriftasjóðinn?

Að lokum vil ég líka spyrja hv. þingmann út í samningaviðræður sem Hreyfingin átti í við ríkisstjórnina, m.a. um að láta kanna útfærslu á þessari leið til að hægt væri að fara í 20% leiðréttingu fasteignalána. Hvað var það sem ríkisstjórnin gat ekki sætt sig við í þessari útfærslu? Eða gat hún einfaldlega ekki sætt sig við að fasteignalán heimilanna yrðu leiðrétt?